143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samningur um þátttöku Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu.

288. mál
[15:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, í sjálfu sér hafa ekki komið fram nein vandamál eins og hv. þingmaður nefndi varðandi Rúmena eða Búlgara. Hins vegar hefur verið talið eðlilegt að nýta þennan frest, a.m.k. þessi tvö ár, og önnur EES-ríki hafa nýtt sér þennan frest. Við töldum rétt að gera það og það er gert í samráði meðal annars við aðila vinnumarkaðarins.

Ég er hins vegar ekki viss um að þessi framlenging verði nýtt þegar að henni er komið. Málin hafa þróast á þann veg, eins og hv. þingmaður nefndi, með Rúmena og Búlgara, en við skulum orða það kannski þannig að þetta sé svona varfærið skref sem menn taka með því að taka þessa tveggja ára frestun.

Varðandi EES-samninginn sem slíkan er í sjálfu sér ekki nein formleg vinna af hendi utanríkisráðherra við að endurskoða þau mál sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. þá breytingu eða þann aukna þrýsting sem er á okkar stjórnskipan eða stjórnarskrá. Það er hins vegar verið að skoða, eins og hv. þingmanni er væntanlega kunnugt, einstök mál sem hafa komið til kasta Alþingis.

Hins vegar er ljóst að haldi áfram sem horfir koma upp sífellt fleiri mál sem spurningar vakna um og svo virðist vera að það verði þannig út af þeim uppsafnaða vanda, ef ég má orða það svo, eða þeirri uppsöfnuðu eftirgjöf sem við höfum veitt af okkar rétti, við skulum orða það þannig, að þá vakna þessar spurningar.

Við höfum rætt þessi mál við Norðmenn vegna reynslu þeirra. Það kann að vera að við munum eiga einhvers konar samstarf við þá við að skoða þessi mál.