143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samningur um þátttöku Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu.

288. mál
[15:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágætlega greinargóð svör. Ég nefndi þetta með vinnumarkaðinn af því að maður skildi í sjálfu sér þegar þessi stækkun var síðast með Búlgaríu og Rúmeníu að menn vildu nýta sér þá fresti sem voru settir inn, einnig að því er varðar Evrópusambandið sjálft og að menn vildu nýta þá inni á EES-svæðinu. Ég held að það væri ágætt að menn reyndu að draga lærdóma af því hvort það hafi reynst eins þýðingarmikið og menn gáfu sér kannski fyrir fram, af því að notuð voru ákveðin rök, m.a. af hálfu aðila vinnumarkaðarins, eins og ráðherra gat um, á sínum tíma. Ég er ekki alveg sannfærður um að þau eigi að fullu leyti við og þess vegna sé ástæðulaust að vera að nýta þessa fresti þó að hér sé um varúðarsjónarmið eða varfærið skref að ræða. Ég hvet til að það sé skoðað sérstaklega.

Hvað varðar síðan EES-samninginn í heild sinni er mér svo sem kunnugt um þau álitamál sem hafa verið uppi að undanförnu og til umræðu, m.a. á vettvangi utanríkismálanefndar. Ég hvet einfaldlega til þess að menn ræði vel og vandlega EES-samninginn og þróun hans. Hann hefur breyst mjög mikið frá því að hann var tekinn upp 1994, eða gekk í gildi, hann er auðvitað í sífelldri þróun og breytingu og það er ýmislegt sem menn sáu ekki fyrir á þeim tíma. Ég tel að full ástæða sé til þess að fara vel yfir þær breytingar sem hafa orðið á þeim samningi og hvað það er sem við stöndum frammi fyrir á næstunni í fyrirsjáanlegri framtíð. Norðmenn unnu mjög ítarlega skýrslu um þróun EES-samningsins og stöðu hans fyrir tveimur árum og við höfum svo sem getað nýtt okkur þá vinnu að einhverju leyti. En það væri held ég ástæða til að halda vöku sinni gagnvart þeim álitamálum sem koma upp og hvernig við leysum úr þeim, því að ég geng út frá því að flestir séu þeirrar skoðunar að við viljum halda EES-samningnum.