143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samningur um þátttöku Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu.

288. mál
[15:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi rökin, að velta því fyrir sér hvort þau eigi við, hvort við þurfum að taka þessi varfærnu skref. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, það er alveg vel þess virði að velta því fyrir sér hvort við þurfum að stíga þau skref í framtíðinni þegar stækkun — ef stækkun — Evrópusambandsins heldur áfram, réttara sagt. Það held ég að þurfi hins vegar kannski að meta í hvert skipti sem slíkt á sér þá stað.

Þegar við hittum eða fundum með hinum EES-ríkjunum ræðum við að sjálfsögðu hvernig samningurinn hefur þróast og þau vandamál sem koma upp, ekki bara hjá okkur heldur annars staðar líka. Við höfum að sjálfsögðu rætt það líka hvernig við getum brugðist við því. Sú umræða mun halda áfram og ég geri ráð fyrir að taka það upp á næsta fundi EES-ríkjanna hvort ástæða sé til að við setjumst niður saman og veltum því fyrir okkur hvert við erum að stefna. Þá er það gert með því markmiði að halda áfram með EES-samninginn að sjálfsögðu, þróa hann og vinna með Evrópusambandinu að lausn sem hugnast þeim ríkjum. Slíka umræðu verðum við að taka, held ég, áður en við förum að leggjast í miklar breytingar á stjórnarskrá okkar mögulega, enda vitum við hvers konar ferli það er, það er flókið og tímafrekt ferli.

Gleymum því ekki heldur þegar við ræðum EES-samninginn að í honum eru miklir hagsmunir atvinnulífs og viðskiptalífs okkar. Ég hef ekki heyrt neitt annað þaðan en að í samninginn vilji menn halda. Hann er orðinn 20 ára gamall og eðlilegt að menn velti fyrir sér hvernig hann hefur þróast og í hvaða átt hann er að fara. Mannaskipti hafa líka orðið eins og gengur og gerist innan Evrópusambandsins og þess hóps sem sýsla með samninginn þar, ákveðin kunnátta og þekking á sögunni er farin út. Við þurfum því kannski svolítið líka að hafa fyrir því að halda mönnum vakandi.