143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samningur um þátttöku Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu.

288. mál
[16:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu hans. Hv. þingmaður taldi mig hafa glaðst mjög yfir nýjum stjórnmálaflokki í Þýskalandi. Í sjálfu sér gladdist ég ekkert sérstaklega yfir nýjum stjórnmálaflokki, ég vildi hins vegar vekja athygli á því að það er ekki bara í Englandi þar sem efasemdir eru uppi um ágæti Evrópusambandsins eða evrusamstarfsins. Hv. þingmaður nefndi réttilega að á þýska þinginu eru rúmlega 600 þingmenn, 650 eða eitthvað slíkt, gerði þar af leiðandi því skóna að það yrði nú lítið um þennan eina þingmann sem þessi flokkur gæti mögulega fengið á þýska þinginu. Það mætti þá heimfæra þau ágætu rök þingmannsins yfir á Ísland og Evrópuþingið þar sem Ísland mundi eiga kannski tvo, þrjá þingmenn á þingi Evrópusambandsins og hafa þar álíka vald og þessi eini þingmaður mögulega í Þýskalandi. Ég held hins vegar að mikilvægt sé að við missum okkur ekki um of í faðm skáldskapargyðjunnar þegar við ræðum hér hvað er sagt og hvað ekki sagt. Eflaust og kannski hefði utanríkisráðherra þurft að tala skýrar.

Þannig er að ég hef sagt að fara þurfi yfir það hvernig samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið virkar á Íslandi, hvernig hann leggst á stjórnskipan okkar og slíkt. Ég hef hins vegar sagt að ég telji ekki ástæðu til að taka upp samninginn, endurskoða t.d. tollkvóta í fiski, frjálsa för fólks og annað, það er það sem ég hef sagt að ég telji ekki ástæðu til. En ég er að sjálfsögðu, væntanlega eins og hv. þingmaður, alltaf tilbúinn til að hlusta á góð rök. Ef menn telja að ástæða sé til að taka upp samninginn og geta fært fyrir því rök þá skoða ég það að sjálfsögðu.

En það hvernig EES-samningurinn fúnkerar í íslensku stjórnkerfi, gagnvart íslensku stjórnarskránni, þurfum við eðlilega að skoða í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið í þessum uppsafnaða vanda sem hv. þingmaður lýsti alveg ágætlega. Við erum ekki að deila um það, við erum komin á þann stað að við þurfum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við getum haldið svona áfram þegar „uppsafnaður“ vandi er með þeim hætti að við séum búin að gefa of mikið eftir af okkar valdi, komin umfram það sem stjórnarskrá heimilar, þá þurfum við að sjálfsögðu að skoða það. Það er sá hluti sem við þurfum að vera vakandi yfir.

Ég er að reyna að útskýra þann mun sem er á því að endurskoða samninginn sem slíkan eða hvernig hann fúnkerar hjá okkur. Ég vona að mér hafi tekist það þokkalega. Ef ekki þá er ég fullviss um að við eigum eftir að eiga umræðu síðar um þennan samning.