143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði menntunar heilbrigðisstarfsmanna.

41. mál
[16:32]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar vegna þingsályktunartillögu um samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði menntunar heilbrigðisstarfsmanna, starfsmannaskipti og veitingu heilbrigðisþjónustu á milli landanna.

Í stuttri en skýrri umsögn í nefndarálitinu er aðdraganda málsins lýst. Lagt er til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að efna til aukins samstarfs við stjórnvöld Færeyja og Grænlands um menntun heilbrigðisstarfsmanna og að tryggja möguleika á starfsmannaskiptum o.s.frv. Meðal annars er vikið að sérstöku samstarfi á sviði geðlæknisþjónustu. Það er vísað til þess að í kostnaðarmati velferðarráðuneytis kemur fram að samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði heilbrigðisþjónustu eigi sér langa sögu og þar séu fyrir hendi samningar og samráð. Heilbrigðisráðherra hefur þegar tekið tillögurnar til umræðu á vettvangi samstarfsráðherra á sínu sviði. Ljóst er að þótt tillagan sé almennt orðuð verður í framhaldinu unnt að átta sig betur á kostnaði.

Málið á sér rót í ársfundi Vestnorræna ráðsins 20. ágúst 2013 í Narsarsuaq á Suður-Grænlandi og hefur sambærilegum áskorunum verið beint til landsstjórna Færeyja og Grænlands.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara ítarlegar út í þetta mál. Í umfjöllun utanríkisnefndar var víðtæk samstaða um það og að efla bæri samstarf við Færeyjar og Grænland, okkar næstu nágranna, á þessu mikilvæga sviði. Ég vísa til þess að það er þegar fyrir hendi í mörgum efnum, en lögð er áhersla á að áfram verði haldið á þeirri braut.