143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði heilbrigðisþjónustu.

44. mál
[16:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langaði bara að taka fram, vegna þess að ég var beðin um að brýna ráðherrann til dáða, að ég hef fulla trú á því að ráðherrunum öllum frá þessum þrem þjóðum sé full alvara með það að fara eftir þeim ályktunum sem Vestnorræna ráðið hefur gert varðandi heilbrigðismálin; og þing þjóðanna munu álykta um það eins og við erum að gera hér. Þeir funduðu í Færeyjum nú í janúar og ég tel rétt að upplýsa að ekki er langt í þeirra næsta fund þar sem samstarfið verður rætt enn frekar og menn munu fara enn lengra í því að reyna að skilgreina hvar hægt er að vinna nánar saman og hvernig því samstarfi verður nákvæmlega háttað. En að sjálfsögðu mun sú sem hér stendur, sem og allir þingmenn í Vestnorræna ráðinu, fylgjast náið með því hver framgangurinn verður.