143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði heilbrigðisþjónustu.

44. mál
[16:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að nýta seinna andsvar mitt til að þakka hv. þingmanni fyrir áhugann og ágæta ræðu. Hún sýnir að flestallir þingmenn í þinginu skilja og meta mikils Vestnorræna ráðið og það starf sem fer fram þar. Það er gott að vita til þess að þingheimur allur hefur enn sem komið er, á þessu þingi, staðið með þeim ályktunum sem utanríkismálanefnd er að afgreiða og Vestnorræna ráðið hefur komið á framfæri.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að stjórnmálaleg staða umræðunnar um vestnorrænt samstarf og samstarf Grænlendinga við önnur ríki er svolítið viðkvæm í Grænlandi í sumum hópum. Það var mjög ánægjulegt að verða vitni að því þegar við Íslendingar opnuðum sendiskrifstofuna í Nuuk sem hv. þingmaður, sem þá var utanríkisráðherra, átti stóran hlut í að koma í undirbúning. Það hefur verið eitt af stóru baráttumálunum hjá Vestnorræna ráðinu í gegnum árin.

Auðvitað erum við alltaf að ná einhverjum árangri. Þingmaðurinn sagði að mikilvægt væri að tala saman en enn mikilvægara að ná einhverju niður á blað eða að ná árangri. Ég trúi því að við höldum áfram veginn og náum árangri í vestnorrænu samstarfi.