143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Fjóla Hrund Björnsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mikilvægt er að halda umferðinni gangandi og að umferðarmannvirki standist tímans tönn. Nú til dags þegar fjöldi bíla á götum borgarinnar fer sífellt vaxandi og umferðin verður sífellt þyngri er rétt að leita leiða til að láta umferðina ganga betur en hún gerir.

Æ fleiri þjóðir hafa tekið það upp í umferðarlögum sínum að leyfilegt sé þegar tækifæri gefst að beygja til hægri þegar rautt ljós er og hefur það reynst vel í þeim löndum þar sem það er leyfilegt. Ég tel að við Íslendingar ættum að skoða þá hugmynd og taka slíkt upp á öllum beygjuljósum. Ef það eru gatnamót sem þetta á ekki við um er hægt að setja upp þar til gert skilti. Þann ávinning sem verður af því að bæta hægri beygju í umferðarlögin munum við líklega sjá á umferðarþunganum og þegar lítil umferð er er auðvelt að beygja til hægri án þess að brjóta umferðarreglur.

Ég tel tímabært að taka upp í umferðarlögum að leyfa hægri beygjur á rauðu ljósi í öllum beygjum og yrði það þá á ábyrgð ökumanna að ákveða hvenær mundi henta að beygja til hægri. (Gripið fram í: … hentar … framsóknar …)