143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki ofsögum sagt af kvalræði hv. þm. Marðar Árnasonar í hvalamálinu, ég veit að það kvalræði á eftir að endast lengi vegna þess að hvalveiðar eru náttúrlega komnar til að vera.

En að öðru. Hv. atvinnuveganefnd fékk fyrir stuttu á sinn fund marga aðila úr sjávarútvegi og var þá farið yfir breytta stöðu í sjávarútvegi sem er að mörgu leyti mjög alvarleg og þar kemur inn umræðan um veiðigjöldin. Bolfiskur hefur lækkað um 10–20%. Það eru blikur á lofti varðandi loðnu, hvernig loðnuvertíð verður yfir höfuð. (Gripið fram í: Makríllinn …) Það er lækkandi verð á afurðum, sérstaklega í lýsi og mjöli. Einnig er lækkandi verð á frystri loðnu sem tengist m.a. gengi rúblu. Í mörg horn er að líta og greinilegt að við þurfum að hugsa veiðigjöld og álagningu þeirra í þessu samhengi. Það sýnir okkur vel hversu alvarlegt það er þegar við leggjum á veiðigjöld án þess að tekið sé tillit til þess hver staðan er í hinum ákveðnu greinum.

Ég hef útreikninga úr tveimur veiðiferðum hjá skipi sem fór á kolmunnaveiðar, en á það hefur verið bent að veiðigjöld á kolmunna séu allt of há. Þar er staðan þannig að aflaverðmætið er 43,5 milljónir í annarri ferðinni. Að frádregnum launum og olíukostnaði eru um 37 milljónir eftir. Rekstrarniðurstaða án veiðigjalds er sem sagt um 6,5 milljónir en þegar veiðigjaldið er komið á er tap á veiðiferðinni upp á 2,5 milljónir.

Í veiðiferð tvö er þessu svipað farið. Þar er aflaverðmætið um 40 milljónir. Að frádregnum launum, launatengdum gjöldum og olíukostnaði er rekstrarniðurstaðan um 4 milljónir. Síðan kemur veiðigjald á upp á 8,8 milljónir, mínusinn er upp á 4,8 milljónir.

Það sér hvert mannsbarn að svona lagað gengur ekki upp. Svona skattlagning, sem talað hefur verið um af miklu ábyrgðarleysi í þinginu, gagnvart þessum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar gengur ekki upp. (Forseti hringir.) Við erum ekki að hámarka hagsmuni þjóðarinnar með því að ganga svona fram. Þetta þurfum við auðvitað að endurskoða og ég vísa til ábyrgðar hv. þingmanna (Forseti hringir.) þegar við tökum þessi mál til umræðu. (Gripið fram í: Hver ákvað þennan skatt?)