143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

vernd og nýting ferðamannastaða.

[14:09]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða hér þá mikilvægu atvinnugrein sem ferðamannaiðnaðurinn er. Hann blómstrar nú sem aldrei fyrr og ef spár ganga eftir tökum við á móti milljón ferðamönnum á ári innan nokkurra ára. Þetta er gríðarlega jákvæð þróun og skilar okkur mjög mikilvægum gjaldeyristekjum en ágangur ferðamanna á marga vinsælustu staðina er mikið áhyggjuefni og margir eru farnir að hafa efasemdir um að við getum tekið á móti öllum þessum fjölda með góðu móti. Mér finnst við ekki hafa rætt þessi mál mikið hér á þingi og þess vegna kallaði ég eftir sérstakri umræðu og hæstv. ráðherra brást skjótt og vel við.

Umhverfisstofnun hefur tekið saman lista yfir svæði sem eru í hættu vegna átroðnings. Þessi listi kom fyrst út árið 2010 og kom síðan aftur út í fyrra. Svæðin eru flokkuð og sett á rauðan lista eða appelsínugulan lista, allt eftir alvarleika. Þarna eru margir af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins eins og Geysir, Gullfoss, Dyrhólaey, Hveravellir, Skútustaðagígar, Skógafoss og Friðland að Fjallabaki, svo nokkrir séu nefndir. Alls eru þetta 20 staðir. Þarna þarf að grípa til aðgerða og snúa þróuninni við. Sums staðar hefur orðið varanlegur skaði.

Eitt helsta aðdráttarafl Íslands er náttúran og þá gengur eiginlega ekki að vera alltaf að redda hlutum eftir á. Það er stjórnvalda að tryggja að ágangurinn verði ekki meiri en landið þolir. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða var stofnaður 2011 og er mjög nauðsynlegur vegna þess að mörg sveitarfélög geta mjög illa staðið undir þeim framkvæmdum sem eru nauðsynlegar. Þá erum við að tala um þjónustu og aðstöðu eins og bílastæði, örugga göngustíga, ruslatunnur, salernisaðstöðu, hálkuvarnir — því að ferðamenn eru farnir að sækja okkur heim allan ársins hring og við höfum verið í sérstöku átaki til að svo megi verða. Það ætti því ekki að koma okkur á óvart að sjá hér ferðamenn í janúar en samt er víða skortur á þjónustu á veturna.

Á fjárlögum í ár er sett 261 millj. kr. í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og það er í rauninni afar lítið fé miðað við allar þær framkvæmdir sem þarf að fara í. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum fær einn og sér 279 millj. kr. í nýframkvæmdir vegna þess að brýnt er að fara í verkefni þar. Samt er áhugavert að hann fær í rauninni meira en allir hinir staðirnir samanlagt.

Við stöndum frammi fyrir stórri spurningu og hún er sú hvort óumflýjanlegt sé að rukka inn á vinsæla ferðamannastaði til að standa undir kostnaði við nauðsynlegu aðstöðu og stuðla að sjálfbærni í greininni.

Ef við viljum ekki rukka inn verðum við kannski að skattleggja ferðamannaiðnaðinn meira eða láta ríkissjóð standa undir uppbyggingunni. Hinn kosturinn er að gera ekki neitt og þá mun átroðningurinn valda óbætanlegum skaða á náttúrunni sem við erum svo í hinu orðinu að selja ferðamönnunum.

Við setjum líka töluverðan pening í markaðssetningu erlendis. Ég held að það sé nauðsynlegt upp að vissu marki, svo sem að efla tengsl við ferðaskrifstofur og annað. Ég er viss um að alltaf er verið að reyna að nýta peningana sem best en mér finnst líka að það megi spyrja hvort Ísland sé hreinlega komið á kortið og hvort við þurfum kannski núna að fara að setja meiri peninga í uppbyggingu innviða. Ef við viljum ekki beinlínis setja meiri peninga í þetta verðum við að taka þá af öðrum liðum, sem er þá kannski markaðssetningin. Ég er ekki að segja að það sé svarið, ég er bara að velta upp þessum spurningum. Markmiðið núna hlýtur að vera að taka vel á móti ferðamönnum, veita þeim góða þjónustu, tryggja öryggi þeirra og treysta því að ánægður viðskiptavinur sé besta markaðssetningin.

Ég hlakka til að hlusta á umræðurnar hérna. Það eru mjög margir vinklar á þessari mikilvægu atvinnugrein og ég næ bara að koma inn á kannski tvo, þ.e. átroðninginn og markaðssetninguna. Ég hef í sjálfu sér engar sérstakar spurningar til ráðherra, ég hlakka bara til að heyra hvað hún hefur til málanna að leggja. Mig langar þó að spyrja um áformin um ferðamannapassann sem talað hefur verið um. Framkvæmdin virðist vera mjög snúin þannig að mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig staðan á því verkefni sé og hvort við séum að fara inn í sumarið núna þannig að tryggt verði að ágangur ferðamanna í sumar valdi ekki meiri skaða en þegar er orðinn. Hvað erum við að gera til að snúa af þeirri ósjálfbæru braut sem við erum á?

Eins langar mig að spyrja um gjaldtöku við Geysi sem hefur verið í umræðunni, þ.e. hvernig staðan á því máli sé og hver afstaða stjórnvalda sé til þess að landeigendur innheimti gjald af ferðamönnum eins og þar stendur til að gera.