143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

vernd og nýting ferðamannastaða.

[14:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður. Það er vert að geta þess varðandi tölurnar um hvað hver og einn ferðamaður skilur eftir sig að ef til vill má útskýra þær að einhverju leyti með genginu þó að það kannski útskýri þær ekki alveg að fullu. Ég er svo hjartanlega sammála því — ég varð svo hissa þegar ákveðið var að hætta alfarið við þessa ágætislausn með gistináttagjaldið. Ég er líka mjög hissa á því að nú þegar við fáum svona mikla aukningu í ferðamönnum sem koma hingað til að upplifa náttúruna og menningu að engin framtíðarsýn sé í raun og veru. Ætlum við bara að fá fleiri og fleiri? Er það framtíðarsýnin? Og að bjóða fólki upp á það að ekki sé einu sinni hægt að fara á klósettið á okkar helstu stöðum sem við erum að markaðssetja?

Það eru aðilar að markaðssetja ákveðna staði. Þeir hljóta að skila inn einhverjum sköttum. Það er látið eins og þessi einn stærsti iðnaður landsins skili ekki af sér neinu til að geta byggt þetta upp. Það er álíka og að senda fólk alltaf á árabátum til að ná í fisk út á miðin, bara á árabát í Smuguna, takk fyrir.

Mér finnst rosalega skrýtið að framtíðarsýn vanti algjörlega. Mér finnst skrýtið að ekki sé tryggt að bæði staðirnir sjálfir séu verndaðir sem og að við komum betur fram við þá sem koma og upplifa náttúruna með okkur. Ég skora á hæstv. ráðherra að finna lausn sem við getum öll fellt okkur við.