143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

vernd og nýting ferðamannastaða.

[14:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Róbert Marshall þyrfti að ræða við félaga sinn, hv. þm. Óttar Proppé, um jákvæðni og jákvæða nálgun í þessu því að ræða hv. þingmanns var endemis svartnættistal.

Ég held í fyrsta lagi að nauðsynlegt sé að hafa í huga að það að hækka skatta er ekki alltaf lausn þeirra vandamála sem við er að stríða. Það verður líka að hafa í huga þegar verið er að innleiða nýja gjaldtöku, eins og talað er um í sambandi við náttúrupassann, að þá er ekki hægt að skella því á einn, tveir og þrír. Það þarf aðdraganda og ég virði það við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að vilja gera það vandlega og huga vel að því hvernig eigi að standa að útfærslu vegna þess að um leið og í þessu felast ákveðnir möguleikar þá geta falist vandamál í útfærslunni sem þarf að takast á við. Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að hægt sé að skella þessu á fyrirvaralaust.

Varðandi þau viðfangsefni sem við er að stríða í þessum efnum þá held ég að við getum verið nokkuð sammála um þau. Við vitum að fjöldi ferðamanna hefur aukist til mikilla muna. Við vitum að á því þarf að taka. Við vitum að það þarf að tryggja að ferðamenn dreifist víðar um landið eða ferðaþjónustan dreifist víðar um landið þannig að álag á helstu ferðamannastöðum minnki eða aukist að minnsta kosti ekki; að sú aukning sem verður í fjölda ferðamanna skili sér þá víðar um landið jafnframt því sem hún skili sér yfir lengri tíma á árinu eins og raunar hefur verið að gerast. Þetta eru mikilvæg viðfangsefni.

Með sama hætti, ef við horfum á stöðu ferðaþjónustunnar í breiðari skilningi, þarf líka að huga að því hvernig hægt er að auka tekjurnar af henni. Málið snýst ekki bara um það, eins og hv. þingmenn vita, að fá fleiri ferðamenn til landsins. Það er ekki markmið í sjálfu sér heldur fyrst og fremst, ef við horfum á þetta sem atvinnugrein, að tekjurnar verði sem mestar. Það kann að kalla á annars konar uppbyggingu en við höfum hugsað. Við vitum til dæmis að þeir ferðamenn sem skila mestu eru þeir sem koma hingað í ráðstefnutilgangi og öðru slíku.