143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

vernd og nýting ferðamannastaða.

[14:39]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Sannarlega er það þannig að hér þarf að marka framtíðarsýn. Ég hef hugleitt að leggja það til varðandi þjóðgarðinn á Þingvöllum að við látum útbúa einhvers konar verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn til að taka alla þættina inn. Það getur vissulega verið erfitt að stíga öldu á milli ólíkra sjónarmiða gesta, t.d. hvað varðar væntingar til Þingvalla. Sumir vilja hafa þar þögn og myrkur meðan aðrir vilja fá afþreyingu, vilja fá að sigla á vatninu, synda, klifra, kafa, veiða og hjóla. Þetta eru staðreyndir sem er stundum svolítið erfitt að sigla á milli.

Grunngildi Þingvalla mega ekki verða út undan vegna glímunnar við vaxandi fjölda ferðamanna. Þess vegna höfum við lagt mikið fé, við höfum fengið það, í að bæta innviði eins og frummælandi var að tala um, að við þyrftum að styrkja innviðina. Við erum að endurbæta bílastæðin. Það hafa fáir fundir verið án þess að talað sé um salernismál, það er staðreynd. Sem betur fer er verið að laga mjög mikið umhverfið uppi á Hakinu sem tekur á móti flestöllum ferðamönnum sem koma til landsins. Það er bara þannig. Ég held að núna hafi komið um 800 þúsund manns. Þetta erum við að reyna að lagfæra. Við viljum geta búið Þingvelli undir að vera áfram sá staður sem þjóðin heimsækir á stórviðburðum sínum. Ég held að nú þegar þurfi að fara að búa staðinn og allt undir að ekki eru nema 16 ár þangað til við höldum upp á 1100 ára afmæli Alþingis. Það er fljótt að líða og til að (Forseti hringir.) við getum haldið hátíð með reisn og virðingu og í sátt við náttúru staðarins þurfum við að hefjast handa.