143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga janúar -- júní 2013.

285. mál
[15:50]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég flutti reyndar margar keimlíkar ræður á síðasta kjörtímabili þegar ég sat í hv. fjárlaganefnd og var málshefjandi í a.m.k. tvennum utandagskrárumræðum um aga í ríkisfjármálum. En það er kannski eins og þingmaðurinn kom sjálfur að í ræðu sinni að áhugi á þessu málum hefur ekkert verið neitt sérstaklega mikill. Einhver sagði mér að þegar stjórnmálamaður færi að tala um aga í ríkisfjármálum sofnuðu hlustendur en rönkuðu við sér þegar hann lofaði þeim að skipta um ljósaperu í ljósastaurnum í götunni þeirra. Ég held að það megi til sanns vegar færa að þetta sé ekki vinsælasti málaflokkurinn en ég tek heils hugar undir þau orð að þetta sé kannski eitthvert stærsta og mikilvægasta málið sem við þurfum að glíma við.

Ég fór til Svíþjóðar í þá för sem hv. þingmaður nefndi og það er allt rétt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns. Svíar hafa náð gríðarlega góðum tökum á ríkisfjármálum. Það gerðist eftir að þeir lentu í kreppunni 1993–1995. Það er líka rétt að nú hvarflar ekki að nokkrum þingmanni þar að stíga fram og lofa fjármunum til einhvers verkefnis sem eru ekki til og rúmast ekki innan þess fjármálaramma sem er settur á vorin.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann um það sem hann minntist á, hinar mörkuðu tekjur, en hann sagði að til stæði í fjárlaganefnd að leggja fram slíkt frumvarp. Ég fagna því vegna þess að um það var sátt innan fjárlaganefndar á síðasta kjörtímabili en á meðan var ríkisstjórnin að stíga mörg skref í átt til þess að auka hinar mörkuðu tekjur, eins og t.d. til Ríkisútvarpsins og annarra. Ég er sammála hv. þingmanni að það þurfi með einum eða öðrum hætti (Forseti hringir.) að koma skikki á þessi mál.