143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga janúar -- júní 2013.

285. mál
[15:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegt og gott andsvar. Ég get nú deilt með honum sorgarsögum af því hvernig er að ræða um ábyrgð í opinberum fjármálum. Ég var í átta ár í borgarstjórn Reykjavíkur, lagði þar mikla áherslu á að það væri verið að fara í óhóflega skuldsetningu þar sem skuldir voru færðar úr borgarsjóði í Orkuveitu Reykjavíkur og benti á ævintýrið með Línu.Net. Ég tók hér upp í þinginu hluti eins og Íbúðalánasjóð og annað slíkt og ég get fullyrt það að lýsing hv. þingmanns á viðbrögðunum þegar maður tekur upp slík mál er alveg rétt. Þetta var upphafið að óhóflegri skuldsetningu sveitarfélaga því að úr því að Reykjavíkurborg komst upp með þetta og fór af stað í þá vegferð þurftu hin sveitarfélögin að fylgja á eftir. Og það er kaldhæðnislegt að núna hafa menn verið að færa skuldir aftur frá Orkuveitunni yfir í borgarsjóð Reykjavíkur. Það er annað mál en algjörlega náskylt því að sveitarfélögin eru orðin það stór og hafa það stórt hlutverk gagnvart efnahagslífinu að við þurfum að ræða það líka. Það er vonandi að þeir meiri hlutar sem munu taka við í vor muni axla ábyrgð í opinberum fjármálum.

Hv. þingmaður nefndi að það var algjör samstaða um mörkuðu tekjurnar eftir því sem ég best veit í hv. fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili. Við erum búin að vinna að þessu máli í allan vetur og ég get alveg sagt að ég átti von á því, vegna þess að um málið var samstaða, í það minnsta þegar við hófum þá vegferð, að fulltrúar allra flokka yrðu á málinu. En á lokametrunum varð endirinn sá að bara fulltrúar stjórnarflokkanna eru á því. Eftir því sem ég best veit er búið að dreifa frumvarpinu og ég vona að ég fái að tala fyrir því núna á allra næstu dögum því að eins og AGS, OECD og fleiri aðilar hafa bent á, í það minnsta Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, erum við með algjöra sérstöðu þegar kemur að því hversu hátt hlutfall af tekjum ríkisins er markað.