143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

217. mál
[16:29]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir spurningu hans. Ég mundi þegar hv. þingmaður steig hér í pontu að mér láðist að geta þess að fyrrverandi hv. þingmaður, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, lagði fram frumvarp undir lok síðasta kjörtímabils sem fól í sér að Alþingi mundi ráða skipulagsmálum yfir Alþingisreitnum svokallaða. Mér fannst það gott frumvarp og mig langar, fyrst ég hef aðstöðu til þess, að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi verið sammála frumvarpi hæstv. fyrrverandi forseta Alþingis, Ástu Ragnheiði, um að taka skipulagsvaldið frá Reykjavíkurborg og færa yfir til Alþingis varðandi Austurvöll og hinn svokallaða Alþingisreit. Mig minnir að það mál hafi því miður ekki komið til umræðu en það var lagt fram undir lok síðasta kjörtímabils þar sem hv. þingmaður átti sæti.

Það er vissulega rétt að mörg sveitarfélög eiga land að Keflavíkurflugvelli og margt rétt sem kom fram um aðkomu hersins. Það breytir því ekki að ég er þeirrar skoðunar að skipulagsvald á Keflavíkurflugvelli eigi alltaf heima hjá stjórnvöldum landsins, hvort sem það er ráðherra eða Alþingi. Það er miklu eðlilegra hvort sem sveitarfélögin ráða við það eða ekki. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann koma með þá staðhæfingu eða fullyrðingu að það eigi að færa valdið til baka til sveitarfélaganna þriggja.

Svo ég svari spurningu hv. þingmanns veit ég að hann breytti því aðeins frá frumvarpinu sem kom fram varðandi skipulagsvald sveitarfélaga og styrkti það heldur á einhvern hátt þannig að það hefur ekki komið mikið til tals í (Forseti hringir.) umhverfisnefnd. En við erum að fjalla um náttúruverndarlögin núna og munum væntanlega (Forseti hringir.) klára þau fljótlega. Tíminn er liðinn og ég skal svara þessari spurningu betur í næsta andsvari.