143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

217. mál
[16:31]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir síðustu orð ræðumanns, ég óska eftir að hann svari spurningunni. Ég vék Keflavíkurflugvelli til hliðar vegna þess að hann er mjög sérstakur, bæði saga hans, staða og lega í sveitarfélögum. Ég skal ekkert segja um hver á að hafa skipulagsvaldið, ég tel eins og þingmaðurinn að það sé vel komið í höndum ríkisins. Það var áður þannig að á Keflavíkurflugvelli ríkti jarl, hann var sérstakt jarlsdæmi sem úthlutað var þegar ríkisstjórnir voru settar á fót. Það þótti mjög eftirsóknarverð staða að vera einvaldur á Keflavíkurflugvelli og það var utanríkisráðherra sem var það. Ég held því að við eigum að taka Keflavíkurflugvöll út fyrir þennan sviga eða setja hann í annan sviga.

Það sem ég spurði um sérstaklega voru mál sem sveitarfélögin hafa gert athugasemdir við. Ég tel rétt að þau hafi gert þær athugasemdir þó að ég kunni að vera annarrar skoðunar en meiri hluti sveitarfélaganna. Ég tel rétt að hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar svari því hér þegar hann flytur frumvörp um að flytja skipulagsvaldið frá höfuðborginni, á stóru og mikilvægu svæði sem er allt innan höfuðborgarinnar og hefur verið alla sína hunds- og kattartíð, Vatnsmýrinni — vegna þess að ég skil það þannig að hann sé að tala um hana fyrst og fremst — hvort hann stendur gegn þeim ákvæðum í skipulagslögum sem gera ráð fyrir að skipulagsvald sveitarfélaganna sé skert gangvart landsskipulagi, landsskipulagsáætlunum. Það sama á við í rammaáætlun, vegna þess að rök þeirra laga eru þannig að skipulagsvald sveitarfélaganna deilist með Alþingi á ákveðinn hátt, og í þeim náttúruverndarlögum sem hann er nú að fjalla um í sinni nefnd. Þar er einmitt gert ráð fyrir því að skipulagsvald sveitarfélaganna skerðist með tilteknum hætti, afar mildilega að vísu. (Forseti hringir.) Það er mikilvægt í þessari umræðu að fá að vita hvort þingmaðurinn styður þetta eða ekki.