143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

217. mál
[16:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í svari hv. þingmanns við andsvari mínu kemur fram þetta hugtak „höfuðborgarhlutverk“, þ.e. að höfuðborgin gegni tilteknu hlutverki. Ég vil biðja hv. þingmann að dýpka það aðeins hvaða hlutverk það er sem hann vísar beinlínis til. Menn vísa gjarnan til þessa hlutverks þegar rætt er um menntun, heilbrigðisþjónustu, samgöngur o.s.frv. án þess að fyrir liggi með nokkrum hætti hvað átt er við. Menn grípa þessa skilgreiningu nánast bara eftir hendinni.

Vegna þess að hv. þingmaður vísaði í frumvarp hv. fyrrverandi forseta þingsins, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, þá er ég jafn andsnúin því frumvarpi og því sem hv. þingmaður ber fram hér, svoleiðis að það liggi fyrir. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður er formaður umhverfis- og samgöngunefndar og áttar sig væntanlega á því að hér er um að ræða frumvarp sem ætlað er að gangi lengra en gildandi skipulagslög að því er varðar þennan tiltekna þátt. Þá vil ég biðja hann um að reifa hér sérstaklega og velta vöngum yfir því hvaða hætta geti stafað af slíku fordæmi. Hvers konar breytingar á skipulagsvaldi tiltekinna sveitarfélaga eða skerðingu á því gætu fylgt eftir með sömu eða svipuðum röksemdum og hv. þingmaður ber hér uppi? Frumvarpið sem hv. þingmaður vísar til frá fyrrverandi forseta þingsins varðaði ekki Reykjavíkurflugvöll heldur annað svæði.

Maður veltir fyrir sér hvort menn sjái það fyrir sér að Alþingi geti seilst inn í tiltekin svæði með góðum rökstuðningi hverju sinni þar sem skipulagsvaldið er smám saman nagað af sveitarfélögum án þess að það sé gert kerfisbundið eins og hugsunin var og er varðandi landsskipulagið, sem er allt önnur nálgun.