143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

217. mál
[16:45]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er rétt að hefja þessa stuttu ræðu á því að geta þess að sá sem hér stendur átti engan þátt í flutningi þess máls sem hann minntist á að fyrrverandi forseti hefði flutt og lýsti yfir andstöðu við það strax og hann sá það, sá sem hér stendur sem sé, og er ósammála þeim meginatriðum sem það snerist um. Það þýðir hins vegar ekki að Alþingi hafi ekki samráðsrétt og borgin samráðsskyldu um þetta svæði, um nánasta umhverfi Alþingishússins og nágrenni þess, en ég var ósammála því og fannst það ekki rétt, skulum við bara segja, af forseta þingsins að leggja það mál fram. Hann er hér fjarstaddur, sá sem það frumvarp flutti, og ekki rétt að hafa fleiri orð um það að sinni.

Ég fagna hins vegar þeim stuðningi sem fram kom í andsvörum hjá hv. flutningsmanni við þau ákvæði í skipulagslögum, í lögunum um rammaáætlun og í náttúruverndarlögunum sem nú hafa verið samþykkt og taka gildi 1. apríl nk. þar sem skipulagsvaldinu er í raun og veru deilt milli Alþingis og sveitarfélaganna með tilteknum hætti. Við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að einstök mál geti verið það mikilvæg að Alþingi, og ríkið þar með, almannavaldið, taki ákvörðun sem sveitarfélögin að lokum verði að lúta. Sá munur er að vísu á ákvæðunum í þessum þrennum lögum og síðan í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar að í öllum þessum þrennum lögum er sveitarfélögunum gefið mikið svigrúm. Í landsskipulaginu er það þannig að um er að ræða landsskipulagsáætlun, sem á að verða til í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Í bæði lögunum um verndar- og orkunýtingu landsvæða og í lögunum um náttúruvernd er það þannig að sveitarfélögin fá mjög rúman umþóttunartíma sem spannar þrjú kjörtímabil til þess að standa á móti þeirri ákvörðun sem Alþingi hefur tekið og geta þess vegna safnað rökum og safnað liði gegn þeirri ákvörðun sem Alþingi hefur tekið ef þau vilja, ef sveitarstjórnirnar eru einhuga um það og ef andstaða í sveitarfélaginu er slík að sveitarfélagið geti haldið uppi slíku andófi. Í bæði skiptin var það auðvitað hugsað þannig að það yrði erfitt fyrir þingið, erfitt fyrir ríkisstjórnina, að standa á móti eindregnum vilja sveitarfélagsins sem færi á svig við ákvörðun Alþingis. Því skipulagsvaldi sem þar er um að ræða var deilt eða það var skert hjá sveitarfélögunum með eins mildilegum hætti og hægt var.

Hér er hins vegar ekki um það að ræða. Hér er um það að ræða að flutningsmaðurinn vill að Alþingi hreinlega taki á sér krumluna og flytji hana hér suður í Vatnsmýrina — af því að ég tel að það sé það svæði sem þingmaðurinn á við — og taki það bara til sín orðalaust, samráðslaust, án þess að Reykjavíkurborg hafi þar nokkurt hlutverk annað en að það á að nota skipulagsfulltrúa Reykjavíkur sem eins konar starfsmann skipulags- og byggingarnefndar og kemur reyndar ekki fram, þingmaðurinn leiðréttir mig með það, hver á að borga honum launin sem hann vinnur fyrir skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurflugvallar, sem er í raun og veru skipulags- og byggingarnefnd Alþingis, sem hér verður stofnuð og þarf að hafa hér skrifstofu í einhverju húsnæði, kannski bara á skrifstofu hv. þingmanns. Eru þetta ekki fimm manns sem eiga að sitja í henni? Kannski er hægt að greiða þeim laun í staðinn fyrir landverðina sem búið er að reka. Í staðinn fyrir að halda áfram að friðlýsa svæði á Íslandi er hægt að borga skipulags- og byggingarnefnd Alþingis, skipulags- og byggingarnefnd hv. þm. Höskulds Þórhallssonar, þau laun. Hér er ekki verið að spara, forseti, hér er þvert á móti verið að eyða fé til óþarfra hluta.

Þannig að ég hætti nú að skemmta um hinn óskemmtilegasta hlut þá er það þannig, forseti — já, svarið við spurningu þingmannsins er það að sjálft frumvarpið er gallað og það væri auðvitað hægt að laga í meðförum Alþingis. Það er gallað að því leyti til dæmis að það vantar í það rökstuðning um af hverju hér er um sérlög að ræða, því að skipulagslögin eru ein og þau taka, með undantekningunni Keflavíkurflugvöllur, til alls landsins; og allar þær sveigjur og úrleiðir sem þurfa að vera í skipulagslögum, það er allt í skipulagslögunum. Þetta er hins vegar utan við skipulagslög og það kemur á óvart og er auðvitað galli við frumvarpið.

Það er ekki galli en það er athyglisvert að skipulags- og byggingarnefnd Alþingis virðist ætlað að ráðleggja Alþingi um það hvaða svæði það eru í Reykjavík sem á að afmarka í uppdrætti sem ráðherra birtir í B-deild Stjórnartíðinda. Það er ekki tekið fram í frumvarpinu að átt sé við Vatnsmýrina. Hér í Reykjavík, hv. þingmanni til upplýsingar, er komin upp sú málvenja að við tölum um Reykjavíkurflugvöll sem flugvöll þann sem rekinn er í Reykjavík en er ekki endilega staðsettur með þeim hætti. Ef við eigum við flugvöllinn sem hér er í Vatnsmýrinni þá tölum við um Vatnsmýrarflugvöll, og aðrir flugvellir í Reykjavík, því að þeir eru fleiri, hafa önnur nöfn. Hér virðist skipulags- og byggingarnefnd Alþingis því geta ráðið því sjálf hvar hún setur niður þennan flugvöll. Ef hún gefst upp á Vatnsmýrinni, ef Vatnsmýrin fer nú undir sjó hér í loftslagsbreytingunum, virðist skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur geta tekið eitthvert annað svæði til brúks, kannski Hólmsheiðina, kannski bara Kvosina, kannski Vesturbæinn, kannski Breiðholtið. Þetta er auðvitað galli á lögum þó að mönnum kunni að þykja þessi röksemdafærsla nálgast hártogun.

Það er líka alvarlegur galli á frumvarpinu að ekkert er um það getið, sé það sett fram í einhverri alvöru, hvernig samskiptin eiga að vera við Reykjavíkurborg, við hina kjörnu fulltrúa á svæðinu. Ekki er gert ráð fyrir neins konar samráði nema því að menn ætli að nota skipulagsfulltrúa Reykjavíkur sem starfsmann þessarar nefndar.

Ég læt hér lokið gagnrýni minni á frumvarpið en það er auðvitað þannig samt, forseti, að þótt frumvörp eins og þetta séu ef til vill fyrst og fremst sett til að vekja athygli á málinu þá verða þau að standa undir sér, þau verða að standast, þau verða að gera skýra grein fyrir þeirri hugmynd, fyrir þeirri tillögu, sem hér er á ferðinni. Ekki er boðlegt að koma með frumvarp sem unnið er á þennan hátt, segja að það sé eins og eitthvert annað frumvarp, sem kom fram einhvern tíma fyrr, og segja síðan að þingnefndin geti gjört svo vel og laga það á eftir.

Hv. þingmaður ræddi hér nokkuð um flugvöllinn og rök með því en þó aðallega á móti að flugvöllurinn yrði fluttur úr Vatnsmýrinni, að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni yrði lagður niður. Þessi umræða er í raun og veru ekki um flugvöllinn í Vatnsmýrinni, hvort hann á að vera hér áfram eða ekki, heldur fyrst og fremst um skipulagsvald Reykjavíkur á þeim flugvelli. Ég ætla því ekki að tefja umræðurnar á því að fara í þessi rök, hvorki þau sem þingmaðurinn nefndi né þau önnur sem nefnd eru. Þetta mál á sér orðið alllanga sögu og rök með og á móti hafa auðvitað komið fram. Það eina sem ég vil segja um það er að það er þannig að framtíð Reykjavíkur, sú sem menn eru nú að marka, ræðst verulega af því hvað verður um þetta svæði. Ef höfuðborgin á að fá að vaxa í takti við þær hugmyndir sem nú eru uppi en ekki þær hugmyndir sem uppi voru til dæmis árið 1960, þar sem gert var ráð fyrir amerískri bílaborg hér á suðvesturhorninu, þá þurfum við á þessu svæði að halda, við þurfum á þeim tengingum að halda sem það býður og við þurfum á því nágrenni við miðbæinn að halda sem þar getur komist fyrir.

Ég held að þótt þrái og þrjóska séu hér í ýmsum mönnum á þinginu og hægt sé að safna hér fjölda undirskrifta með popúlískum aðferðum þá sé það nú þannig, ef menn vilja skoða þetta, að flugvöllurinn fer fyrr eða síðar. Ég held að það sé betra fyrir okkur öll að hann fari fyrr vegna þess að þá gefst okkur tækifæri til að skipuleggja nýjan Reykjavíkurflugvöll annars staðar hvort sem það verður í nágrenni Reykjavíkur eða hvort Reykjavíkurflugvöllurinn verður að lokum að Keflavíkurflugvelli með góðum lestartengingum og samgöngum sem það mundi útheimta.

Hins vegar vil ég, forseti, og hef gert það áður, aðeins minnast á það í tilefni af þessu frumvarpi að við þurfum auðvitað að fara að koma okkur ofan af þeim óþörfu átökum milli höfuðborgar og landsbyggðar sem kristallast hér á þinginu í því að þingmenn úr landsbyggðarkjördæmum, sem flestir eru að vísu meira og minna búsettir í Reykjavík eða nágrannasveitarfélögunum, telja að sér sé það fylgisvænt að ráðast gegn hagsmunum höfuðborgarinnar, útmála hana sem nánast óþarfan stað, gera til hennar kröfur um að hún víki sínum eigin hagsmunum til hliðar fyrir raunverulega eða ímyndaða hagsmuni landsbyggðarmanna, sem hér felast í því að komast á fimm mínútum í staðinn fyrir 15 mínútum eða 20 mínútum frá flugvellinum og til helstu stofnana hér á höfuðborgarsvæðinu.

Reykjavík er Íslandi afar mikilvæg. Það eru ekki allir ánægðir með það og hafa ekki verið hvað Reykjavík er stór og mikil, en hún er svona stór og mikil meðal annars vegna þess að hún tekur við því fólki á Íslandi sem annars hefði hugsanlega farið til útlanda. Þegar við skoðum grannlönd ýmis, Færeyjar, Grænland, þau kunna að þykja of lítil fyrir þetta stórveldi hér, þá er það þannig að þar eru engir staðir sem geta boðið það borgarlíf sem Reykjavík getur gert, sem geta boðið þær nútímalegu aðstæður sem í raun og veru standast í samkeppninni við erlendar stórborgir.

Ég vil hins vegar segja að lokum, þyki hv. þingmanni gagnrýni mín nokkuð hvöss, að það er ekki eins langt á milli okkar og mætti halda. Ég flutti á síðasta þingi, síðasta kjörtímabili, tvisvar eða þrisvar sinnum, ásamt félögum mínum nokkrum, tillögu til þingsályktunar um höfuðborg Íslands, þar sem ég gerði það að tillögu minni að efnt verði til sérstaks samnings milli ríkisins og Reykjavíkurborgar, höfuðborgarsamnings, þar sem farið væri í gegnum réttindi og skyldur — ekki bara skyldur heldur líka réttindi — Reykjavíkur sem höfuðborgar, því að vissulega hefur Reykjavík slíkar skyldur, en hún á líka að njóta sinna réttinda. Ég held að ef við færum þá leið, að gera okkur í rólegheitum grein fyrir því hvaða réttindi þetta eru og hvaða skyldur þetta eru, þá mundum við geta leyst þetta mál, um það hvort hv. þm. Höskuldur Þórhallsson er fimm mínútur eða 15 mínútur á leiðinni úr flugvélinni frá Akureyri, í friði og með sátt á þann hátt að ekki aðeins Reykjavík og Reykvíkingar og nærsveitarmenn — af því að hér situr fyrir framan mig hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem hefur verið nærsveitarmaður Reykjavíkur í ýmsum skilningi, öllum jákvæðum — heldur einnig allir landsmenn, landsbyggðarmenn, Akureyringar, þeir sem búa í nánd við varaflugvöllinn mikla á Egilsstöðum séu sáttir.

Fólk um allt land hefur hagsmuni af því að Reykjavík dafni og þroskist, meðal annars vegna þess, eins og Einar Benediktsson sagði, að báran brotnar hér. Það er hérna sem báran brotnar. Hann orti það að vísu í heldur neikvæðum skilningi um það að Reykjavík gæti staðið á móti erlendum áhrifum, en ég held að það sé þannig að sú bára brotni hér sem annars gæti valdið okkur landflótta, annars gæti gert Ísland að jaðarríki, að „province“, sem ekki mundi standa sig í samkeppni um hæfileika og sálir þess æskulýðs sem nú stendur frammi fyrir erfiðum spurningum um það hvar hann ætlar að eyða ævinni og stofna fjölskyldu.