143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

217. mál
[17:26]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að biðja hv. þm. Höskuld Þórhallsson fyrirgefningar hafi ég sært hann með orðum mínum í ræðu áðan. Það var alls ekki ætlun mín. Ég var meira að lýsa upplifun minni af frumvarpinu. Það sem ég var að reyna að koma til skila var að mér finnst sú leið að taka mjög skýrt vald og ábyrgð sveitarfélaganna í sérstöku tilviki af einu sveitarfélagi á landinu til þess að tryggja skoðun sem virtist ekki vera pólitískt vinsæl í viðkomandi sveitarfélagi mjög stór aðgerð, og kannski ekki endilega sú eina rétta til þess að fá þá niðurstöðu að umræða yrði meðal fleiri sem koma að ákvörðun um stöðu eða staðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Ég vil taka fram að flest samgöngumannvirki á Íslandi eru háð fleiri en einu sveitarfélagi. Það eru dæmi um það einhvers staðar á milli Kópavogs og Reykjavíkur að vegir stangist á og ekki sé hægt að keyra á milli samliggjandi hverfa vegna þess að skipulag er ekki samhæft. En í langflestum tilvikum eru bæði upphafsstaður til dæmis Reykjanesbrautar og endi Reykjanesbrautar skipulagðir af tveimur sveitarfélögum en þó þannig að þeir gangi saman.

Það er í raun og veru sú grunnhugsun að einfaldast sé að leysa málið með því að taka það til þeirra sem hafa „réttar“ hugmyndir um það og frá einhverjum öðrum sem truflar mig.