143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

217. mál
[17:29]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að kommentera aðeins á lokaorð hv. þm. Óttars Proppés. Ég virði skoðanir hans en þetta frumvarp er ekki lagt fram til að taka málið frá aðilum með rangar hugmyndir og færa það til aðila með réttar hugmyndir. Það er ekki verið að gera neitt slíkt hér. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að vel getur verið að skipt verði um borgarstjórn. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að við alþingismenn erum ekki heilagir á Alþingi og það er reglulega skipt um mannskap, sem betur fer.

Það sem ég er að segja með því er að ég vil tryggja aðkomu sem flestra. Eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á áðan er það meginregla í vestrænum lýðræðisríkjum. Ég tel að skipulagsmál í jafnstóru máli og staðsetning Reykjavíkurflugvallar er eigi betur heima á Alþingi en hjá borgarfulltrúum, sem gæta eingöngu hagsmuna borgarbúa samkvæmt því umboði sem þeim er veitt við kosningu. Sumir hafa nefnt að best sé að gera út um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef sagt: Gott og vel, það er góð tillaga en hvað svo?

Þess vegna hef ég velt upp: Ef viðhorf einstakra borgarfulltrúa er að öðrum komi málið ekkert við munu þeir þá virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu? Þeir virtu ekki meiri hluta þjóðarinnar í skoðanakönnunum eða undirskriftasöfnun. Varðandi það hvort ég hafi orðið sár í upphafi varð ég ekki sár. Ég verð það mjög sjaldan, þótt það komi fyrir, en mér fannst sú skoðun að ég væri að leggja frumvarpið fram (Forseti hringir.) „af því bara“ ómálefnaleg og órökstudd. Það var það sem ég vildi koma á framfæri.