143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

277. mál
[18:03]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi. Flutningsmenn ásamt mér eru allur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, Bjarkey Gunnarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Svandís Svavarsdóttir. Tillagan til þingsályktunar er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta endurskoða lög og reglugerðir er varða uppkaup á bújörðum og öðru nytjalandi, svo og óbyggðum. Markmið með endurskoðuninni verði m.a.:

a. að setja skýrar reglur sem miði að því að koma í veg fyrir uppkaup erlendra aðila, sem ekki hafa hér lögheimili og fasta búsetu, á landi;

b. að huga að almennum viðmiðum, svo sem landstærð, nýtingu landgæða og fjölda landareigna sem heimilt er að sé á hendi eins og sama aðila;

c. að horfa til umhverfissjónarmiða og ákvæða um almannarétt í allri lagaumgjörð og taka þar m.a. mið af sérstökum aðstæðum varðandi landbúnaðarland, óbyggðir og náttúruauðlindir (svo sem vatn og jarðhita);

d. að tryggja samræmi í réttarheimildum.“

Svo mörg voru þau orð. Þetta var tillaga til þingsályktunar sem við flytjum hér, þingflokkur VG.

Þessi tillaga var áður lögð fram á 140. löggjafarþingi, var þá 329. mál, og á 141. löggjafarþingi, 17. mál, af Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og þingsályktunartillagan er hér flutt óbreytt.

Í greinargerð tillögunnar sem er mjög vönduð og mikil að vöxtum er í upphafi fjallað um eignarhald á landi almennt og bent á að það varði samfélagslega hagsmuni hvers ríkis og íbúa þess. Þess vegna er í lögum sérhvers ríkis ítarlega kveðið á um eignarhald og hvernig til þess megi stofna. Í greinargerðinni segir m.a., með leyfi forseta, í framhaldi af þessum vangaveltum:

„Það ætti því ekki að koma á óvart að flest ríki setja sér lög og reglur sem takmarka á ýmsan hátt aðilaskipti að fasteignum, ekki síst landbúnaðarlandi. Þessar reglur miða m.a. að því að tryggja að ríkisvaldið hafi með einhverju móti stjórn á viðskiptum með land og yfirsýn yfir eignarhald á því.“

Og áfram segir, með leyfi forseta:

„Víða er lögð áhersla á að halda eignarhaldi á landi og auðlindum í almannaeign, en stjórnvöld ríkja þar sem einkaeignarréttur á landi er í hávegum hafður eru mörg hver meðvituð um mikilvægi þess að halda eignarhaldi á landi í höndum eigin þegna. Aukin meðvitund um samspil eignarhalds á landi og réttar til ráðstöfunar á auðlindum hefur m.a. orðið til þess að ríki sem í umtalsverðum mæli hafa misst eignarhald á landi út fyrir landsteina eru nú sum hver að leggja bann við landsölu til erlendra aðila. Önnur ríki leggja áherslu á skýrar skorður og takmarkanir í þessum efnum og í sumum tilvikum er nú reynt að vinda ofan af landsölu sem þegar hefur átt sér stað. Má þar til að mynda nefna ríki í Suður-Ameríku, Afríku og Asíu.

Inn í þessar umræður hafa blandast vangaveltur af stjórnmálalegum toga sem tengjast áhrifum auðmanna, alþjóðlegra auðhringa og erlendra ríkja í gegnum eignarhald á landi og auðlindum. Slík umræða samtvinnast áhyggjum manna af þverrandi auðlindum jarðar, ekki síst vegna mikilvægis þeirrar auðlindar sem kemur til með að verða einna dýrmætust í framtíðinni, þ.e. vatnsins.

Á alþjóðavísu er einnig æ betur staðfest hvílík verðmæti felast í eignarhaldi á jarðnæði og landi, burt séð frá þeim auðlindum öðrum sem slíku landi fylgja. Í því sambandi má til að mynda benda á að gott ræktar- og landbúnaðarland er víða orðið af skornum skammti og það verður æ verðmætara á heimsvísu. Tiltölulega lítil almenn umræða hefur farið fram hérlendis um þessi efni og mörgum spurningum er enn ósvarað. Þær snúa ekki einungis að því hvernig varðveita skuli hér landbúnaðarland til frambúðar í heimi sem horfir fram á að þurfa að fæða milljarða manna við erfið skilyrði. Þær spurningar snúa einnig að því hvernig skuli til að mynda farið með öræfi landsins, víðerni, óbyggðir, landslag, náttúrufarsleg gæði og jarðsögulegar minjar og á hvaða forsendum land skuli metið. Þegar rætt er um framtíðarsýn fyrir land og þjóð í þessum efnum skiptir eignarhald á landi og auðlindum augljóslega sköpum.“

Síðan segir áfram, hæstv. forseti, og ég ætla enn um sinn að vitna í greinargerðina sem fylgir þingmálinu:

„Samkvæmt íslenskri löggjöf helst í hendur eignarhald á landi og eignarhald á þeim auðlindum sem landareigninni fylgja. Í 3. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57 frá 1998, er kveðið á um að eignarlandi fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu. Í 1. gr. þessara laga eru auðlindir skilgreindar og sagt að átt sé við „hvers konar frumefni, efnasambönd og orku sem vinna má úr jörðu, hvort heldur í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs sem þau kunna að finnast við.“ Þarna er átt við grunnvatn „og öll gosefni og önnur steinefni, málma, málmblendinga og málmsteindir, kol, jarðolíu, jarðgas og önnur nýtanleg efni sem finnast kunna.“

Enda þótt skipulagsyfirvöld hafi í hendi sér að setja ýmsar takmarkanir á nýtingu auðlinda liggur í augum uppi að eignarréttur á landi hérlendis er mjög afgerandi og hefur í för með sér yfirgripsmikinn einkaeignarrétt á auðlindum.

Í því samhengi þarf vart að fjölyrða um stöðu laga og reglna hérlendis þegar kemur að vatnsauðlindinni sérstaklega. Íslendingar búa enn við lagaumhverfi sem skilgreinir grunnvatn, þaðan sem m.a. drykkjarvatn landsmanna er fengið, sem hluta af landareign. Það er mikil skammsýni að líta á slíkt sem minni háttar mál eða sem spurningu um viljayfirlýsingu af hálfu hugsanlegra eigenda lands. Enn hefur ekki verið sett heildstæð löggjöf sem tekur til alls vatns, yfirborðsvatns jafnt sem grunnvatns, og sem breyti stefnunni í þessum efnum. Óhætt er hins vegar að fullyrða að til framtíðar litið sé þetta eitt mesta hagsmunamál komandi kynslóða hérlendis.

Í þessu samhengi verður einnig að gæta að ýmsum öðrum þáttum er snúa að almannarétti. Samkvæmt lögum er hægt að tryggja aðgengi almennings að eignarlandi að einhverju leyti og það skiptir vissulega máli þegar um er að ræða eignarhald á náttúruperlum og víðernum landsins. Hitt er þó ljóst að það hefur reynst æ erfiðara í framkvæmd að tryggja óskoraðan rétt almennings til að fá að njóta náttúrugersema sem eru í skilgreindri einkaeign. Fullyrða má að réttur almennings hafi á ýmsan hátt verið fyrir borð borinn eftir að fyrirtæki og fjárfestar sem ekki stunda búskap fóru að kaupa upp jarðir í verulegum mæli. Gömlum þjóðleiðum og óræktuðu landi hefur verið lokað og girt hefur verið fyrir umferð vegfarenda á svæðum sem réttilega ætti að vera allra að fá að njóta. Einboðið er að halda gömlum leiðum opnum fyrir almenna vegfarendur og að bílvegir þeir sem haldið er við af opinberu fé standi öllum til boða. Því fjær sem eignarhaldið er íbúum landsins þeim mun erfiðara er í reynd að framfylgja rétti almennings til landsins og gæða þess. Full ástæða er til að hafa þetta í huga við endurskoðun laga og reglna í þessum efnum með almannarétt að leiðarljósi.“

Hæstv. forseti. Þetta eru beinar tilvitnanir í greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögunni og þungamiðjan í því sem ég var að vísa til hér er skírskotun til laga sem voru samþykkt 1998 eða gengu þá í gildi og ég tel að hafi verið ein misráðnasta lagasmíð fyrr og síðar, liggur mér við að segja. Þar var eignarréttur á auðlindum í jörðu, þar á meðal á vatninu, tengdur eignarhaldi á landi með þeim afleiðingum að þegar land er selt fylgja auðlindirnar með. Íslendingar gengu með þessari lagasmíð lengra en þekkist nánast nokkurs staðar og horfi ég þá til Bandaríkjanna og til Evrópuríkja. Fáar þjóðir hafa gengið eins langt í þessum efnum og við, að tengja eignarhald á auðlindum í jörðu við eignarhaldi á landi. Það þýðir að þegar land er selt fylgir sennilega dýrmætasta auðlind sem hugsast getur, vatnið, þar með. En eins og ég gat um og fram kom í þessum texta geta skipulagsyfirvöld vissulega sett ákveðnar skorður en þær eru þó það litlar að þær kæmu ekki í veg fyrir að reistar yrðu mjög afkastamiklar vatnsverksmiðjur á landi sem hefðu aðgang að vatni og það er auðlind sem á að heyra öllu samfélaginu til.

Síðan er í greinargerðinni, sem er eins og ég sagði áðan mjög vönduð og mjög umfangsmikil og víða komið við, vísað í ýmsa þætti, talað um þann lærdóm sem við þurfum að draga af Magma-málinu. Það hafi til dæmis afhjúpað óskýrleika í lögum um fjárfestingar og aftur vísa ég til þess að áður en við sleppum frá okkur eignarhaldi á landi og auðlindum þurfum við að búa rækilega um alla löggjöf sem að þessu snýr. Þessi þingsályktunartillaga er mikilvæg í því sambandi. Við erum að hvetja til þess að allt sem snýr að eignarhaldi á landi verði tekið til gagngerðrar skoðunar.

Í greinargerðinni er vísað í ýmsa nýliðna atburði, ásælni erlendra auðmanna í land hér á landi, jarðnæði og auðlindir. Síðan vil ég vekja athygli á því að í lok greinargerðarinnar er vísað í lagasmíð í öðrum löndum um svipað efni, í Noregi og í Danmörku einnig. Menn hafa stundum haldið því fram að innan Evrópusambandsins eða á hinu Evrópska efnahagssvæði sé ekki svigrúm til að þrengja möguleika erlendra manna, sérstaklega á EES-svæðinu, til kaupa á landi. Það er mikill misskilningur. Þannig er í Danmörku miklu strangari löggjöf en við búum við. Svo ég vitni í greinargerðina segir um það, með leyfi forseta:

„Í Danmörku gilda sérstök lög um heimildir til að öðlast réttindi yfir fasteign […]. Meginregla þeirra er að einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir í Danmörku eða hafa áður búið þar í a.m.k. fimm ár þurfa leyfi dómsmálaráðuneytisins til að geta eignast fasteignarréttindi í Danmörku. Sama gildir um félög, fyrirtæki, stofnanir og aðrar lögpersónur sem ekki hafa heimilisfesti í Danmörku og erlend stjórnvöld. Dómsmálaráðherra getur sett reglur um undanþágur frá meginreglunni ef um er að ræða heilsársbústað eða fasteign sem er nauðsynleg forsenda þess að rétthafinn geti stundað sjálfstæða atvinnustarfsemi eða þjónustustarfsemi í landinu.“

Síðan er eins og ég gat um áður fjallað um norska löggjöf í greinargerðinni. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Samkvæmt lögunum er meginreglan sú að leyfi stjórnvalda þurfi til að eignast fasteign í Noregi með þeim undantekningum sem kveðið er á um í lögunum.“

Þetta eru sem sagt meginreglurnar sem settar voru. Það sem ég reyndi að gera sem innanríkisráðherra á síðustu dögum síðustu ríkisstjórnar var að setja reglugerð sem þrengdi möguleika erlendra manna til landakaupa á Íslandi. Þá var hugsunin sú og inntakið í þeirri reglugerð að erlendur þegn, þótt hann væri EES-borgari, gæti ekki fest kaup á landi ef hann ekki ætti lögheimili hér eða væri íslenskur ríkisborgari nema kaupin tengdust annarri atvinnustarfsemi og þá öðrum þáttum fjórfrelsisins, réttinum til að geta farið með fjármagn og þjónustu á milli landa. Ef landakaupin tengdust ekki öðrum þáttum í þeim samningum sem við höfum undirgengist við EES væru þau ekki heimil. Þetta var ekkert út í loftið. Þetta var gert að mjög yfirveguðu ráði eftir að hafa spurt og fengið greinargerð frá virtum prófessorum í Danmörku (Forseti hringir.) og virtum prófessor á Íslandi, sem fóru rækilega í gegnum Evrópulöggjöfina og okkar löggjöf og gáfu grænt ljós á þetta. (Forseti hringir.)Það var eitt fyrsta verk núverandi innanríkisráðherra að nema þessa reglugerð úr gildi. Það var ekki gott verk.