143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

277. mál
[18:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir skelegga ræðu þar sem hann færði snöfurmannleg rök fyrir skoðun sinni.

Þegar ég les þessa þingsályktunartillögu finnst mér erfitt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að hið raunverulega markmið hennar og það sem hv. flutningsmanni finnst þurfa að girða fyrir séu kaup eins tiltekins kínversks auðmanns á landareign sem fjallað var um hér í þingsályktunartillögu sem ég hygg að hann hafi mælt jafn skörulega fyrir nokkrum mínútum fyrr.

Þegar ég velti fyrir mér hver er tilgangurinn og hvaða nauður rekur hv. þingmann til að leggja fram þessa þingsályktunartillögu með félögum sínum sé ég ekkert sem kallar á það. Hv. þingmaður vill að settur verði niður vinnuhópur til að skoða ýmislegt, m.a. með það að augnamiði að setja skýrar reglur sem eiga að koma í veg fyrir uppkaup erlendra manna á landi. Ég væri til í að skoða þetta af mikilli alvöru ef ég teldi að veruleikinn væri sá að hann kallaði beinlínis á þetta. En það er ekkert sem hefur gerst hér sérstakt frá því að við gengum í Evrópska efnahagssvæðið allar götur til dags dato annað en að Huang Nubo hefur lýst yfir vilja sínum til að festa kaup á Grímsstöðum á Fjöllum. Það er hið eina sem hefur gerst.

Mér er alveg kunnugt um andstöðu hv. þingmanns í því efni og hef bæði deilt við hann um það og í sumum greinum fallist á rök hans en ef þetta er tilgangurinn af hverju segir hann það ekki og af hverju flytur hann þá ekki hreinlega tillögu sem fjallar um það efnislega að koma í veg fyrir að þessi tiltekni Kínverji geti keypt land á Íslandi? (Forseti hringir.) Það er það sem þetta fjallar um.