143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

277. mál
[18:38]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að horfa til þess sem sameinar mig og hv. þm. Össur Skarphéðinsson í málflutningi okkar, þ.e. þegar hugað er að auðlindum og tengingu eignarhalds á landi við auðlindir. Þar er ég sammála honum um að við eigum að horfa til langs tíma. Það gildir um auðlindirnar og það gildir líka um efnahagsleg áhrif ef auðmenn eru að safna landi sem þeir láta síðan afskiptalaust og verður til að veikja búsetu og byggðarlög. Hann vísar í ákveðin dæmi í Mýrdal og víðar. Ég þekki ekki nægilega vel til til að tjá mig um það af einhverri þekkingu og vil fara varlega í sakirnar þar, en ég minnist þess þegar ég kom þangað sem innanríkisráðherra, ráðherra sveitarstjórnarmála og samgöngumála, að þá höfðu ýmsir sveitarstjórnarmenn á fundi með mér áhyggjur af því að nákvæmlega þetta væri að gerast í Mýrdalnum og viðruðu þær skoðanir en vildu síðan ekki gangast við þeim þegar málið leitaði inn í fjölmiðlaumræðu fáeinum dögum síðar. Það átti alla vega við um suma þeirra og kom mér svolítið á óvart.

Menn hafa einmitt haft áhyggjur af því að auðmenn séu í vaxandi mæli farnir að loka lönd sín af og þar sem menn áttu áður greiðan aðgang að vötnum og ám sé það ekki eins núna. Ég ætla ekki að fullyrða um Mýrdalinn í þessu efni en mér finnst ég hafa heyrt einhverjar sögur um slíkt þótt ég ítreki að ég vil ekki fullyrða um þann ágæta einstakling sem þar hefur fest kaup á landi. Þetta var mér sagt á formlegum fundum sem ég átti á þessum slóðum sem innanríkisráðherra.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að þegar ekki reyndist unnt að selja jarðir gat fólk, sem hafði stundað búskap og enginn ætlaði að taka við jörðinni, yfirleitt ekki fært sig um set, ekki komist á mölina eins og kallað er vegna þess að það gat ekki selt landið nema fyrir svo lítinn pening að hann dugði varla fyrir kjallaraíbúð í Reykjavík svo að ég vitni í orð þingmannsins. Þetta er alveg rétt en á þessu er líka önnur hlið og hún er sú að þegar auðmenn verða einir um hituna í markaðsátökum um land þá fer verðið það hátt upp að hinn almenni maður á Íslandi á engin tök á að kaupa land.

Það hefur verið vandi í sveitum víða að fólk getur ekki tekið við búi. Ef um er að ræða systkinahóp og verðið á landinu er orðið mjög hátt og sá sem ætlar að taka við búinu þarf að borga himinháar upphæðir til að greiða systkinum sínum eða systkinin standa frammi fyrir því að selja það öðrum þá leggst landið í auðn, það fer úr búrekstri. Það eru mörg dæmi um þetta. Innkoma auðmanna, peningafólks hvort sem það eru Íslendingar eða útlendingar, hefur ekki verið til góðs að þessu leyti. Verðið á landi hefur verið sprengt upp og orðið til þess í reynd að taka land úr byggð. Þetta er bara staðreynd.

Ég ítreka það sem ég áður hef sagt að við verðum að hugsa þessi mál til mjög langs tíma. Ég er ósammála hv. þingmanni um að við eigum að taka á vandanum þegar hann kemur upp, hann hafi ekki kominn upp enn, þ.e. að eignarhald á landi flytjist út fyrir landsteinana, og við eigum að bíða þess að vandinn birtist okkur. Þessu er ég algerlega ósammála.

Það er rétt að það er ekki orðinn stórfelldur vandi hér varðandi vatnið en það gæti orðið. Við skulum ekki gleyma því að við erum ekki að tala bara um kalt vant, við erum að tala um heitt vatn líka. Ég man eftir því að þegar þessi hryllilegu lög voru samþykkt 1997 og komu til framkvæmda 1998 þá stillti þáverandi þingflokkur sem ég var í, Alþýðubandalag og óháðir, sér upp við hitavatnsborholu uppi í Elliðaárdal til að leggja áherslu á verðmætin. Við vorum með fréttamannafund þar. Það sem kom upp úr þessari holu var ígildi 0,5 milljarða kr. Þannig var það metið. Þetta var á borgarlandi. Ef það hefði verið 50 metrum ofar eða neðar í landinu hefði það hafnað innan eignarlands sem hefði þá átt vatnið. Þetta er vandinn sem við stöndum frammi fyrir. Ég tel mjög brýnt að taka þessi auðlindalög öll upp með rótum og hugsun okkar varðandi landið og landareignina er liður í slíkum áformum.

Ég hef frétt af því að þingmaður sé að undirbúa þingsályktunartillögu um skilgreiningar á auðlindum. Ég held að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sé að undirbúa slíkt, gott að fá slíkt fram. Ég tel nefnilega mjög brýnt fyrir okkur að taka alla þessa löggjöf og þá löggjöf sem kann að vera vönduð frá undanförnum árum til endurskoðunar, hafa hana í stöðugri endurskoðun og endurnýjun og samhæfingu og horfa þá líka til reynslu annarra þjóða og hugsa langt fram í tímann, ekki bíða eftir því að slysið verði heldur byrgja brunninn áður en barnið fellur í hann.

Aðeins varðandi reglugerðina sem var umdeild á sínum tíma, sem er alveg rétt. Hv. þingmaður og fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra fékk sérfræðinga til að skoða það mál. Þeir voru á öndverðum meiði við þá sérfræðinga sem ég kallaði til slíkrar vinnu og voru frá dönskum háskóla og íslenskum og staðhæfðu að þetta stæðist EES-reglurnar. Ég hefði kosið að hagsmunir Íslands hefðu verið látnir njóta vafans af hálfu núverandi hæstv. innanríkisráðherra í stað þess að bogna strax í málinu og nema reglugerðina úr gildi án þess að láta á það reyna ef hún á annað borð tryði því að reglugerðin væri til góðs, en ég heyrði hana aldrei hnjóða í hana málefnalega sem slíka heldur hitt að hún væri hrædd um að hún stæðist ekki EES-rétt sem hefur eins og ég segi margoft verið staðhæft í mín eyru að hún geri.

Aftur ítreka ég að þessi tillaga, sem kveður á um endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi, er áþekk því sem mörg grannríki okkar eru að gera. Vísa ég þar sérstaklega til Norðmanna sem hafa haft áhyggjur af nákvæmlega sömu þróun og ég hef lýst áhyggjum yfir.

Hæstv. forseti. Ég legg til að þetta þingmál fari til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins að loknum umræðum en vil þakka fyrir þá umræðu sem þegar hefur farið fram. Ég veit ekki hvað hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur á prjónunum í þeim efnum en ég mun þá koma aftur og færa honum þakkir ef hann hefur fleira viturlegt til þessara mála að leggja.