143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

277. mál
[18:49]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal segja alveg undanbragðalaust hvað fyrir mér vakir.

1. Að eignarhald á landi haldist innan íslenskra landsteina.

2. Að land safnist ekki á hendur fárra auðmanna hvort sem þeir eru af erlendu bergi brotnir eða íslenskir.

3. Mér finnst mjög mikilvægt að tryggja aðkomu almennings að landi almennt og að náttúruauðæfi og náttúruperlur séu á okkar hendi.

Það tengir okkur fjórða atriðinu sem lýtur beinlínis að auðlindunum.

Þetta eru þeir þættir sem ég tel mjög brýnt að skoða og við útlistum síðar í þessu þingmáli hvernig við viljum standa að þessum málum.

Ég gat um það áðan að ég teldi að málið ætti að fara til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd. Mér hefur verið bent á að síðast þegar þessi þingsályktunartillaga kom fram hafi hún farið til allsherjar- og menntamálanefndar. Ég legg það í hendur forseta þingsins og starfsmanna að kveða úr um hvað hið rétta er í þessu efni.