143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið í upphafi þingfundar þar sem við ræðum störf þingsins til að lýsa ákveðnum áhyggjum af stöðu mála á þinginu. Ríkisstjórnin kynnti endurskoðaða áætlun um framlagningu þingmála á þessu þingi við upphaf þingstarfa í janúar. Ég skoðaði lauslega þá þingmálaskrá og þann fjölda daga sem er eftir af þingfundadögum á þinginu — eins og kunnugt er ljúkum við störfum um miðjan maí í ljósi þess að sveitarstjórnarkosningar eru í lok maí — og hvað kemur fram þegar ég hleyp yfir þingmálaskrá? Jú, hér voru 181 mál kynnt til sögu í haust. Af þeim hafa einhver verið kláruð og fallið frá öðrum en þegar ég lít yfir endurskoðaða þingmálaskrá eru rúmlega 100 þingmál sem ríkisstjórnin hefur boðað að hún ætli að leggja fram á þessu þingi sem enn eru ekki komin fram.

Við eigum eftir þrjá mánuði hérna þar sem við erum ekki með þingfundi alla daga. Ég vil nefna við hæstv. forseta að mjög mikilvægt er að ríkisstjórnin endurskoði hina endurskoðuðu þingmálaskrá því að allir sjá að hér er mjög færst í fang. Mér sýnist ríkisstjórnin hafa aðeins ætlað sér um of við gerð þessarar þingmálaskrár en það þarf líka hugsanlega að kanna hvernig fara á með starfsáætlun Alþingis í ljósi þess að nefndir eru, a.m.k. margar hverjar, mjög ásetnar með stór og mikil verkefni. Við höfum verið að ræða á undanförnum dögum að mikilvægt sé að hv. þingmenn fái tækifæri til að kafa ofan í málin og sinna hlutverki sínu sem löggjafi. Fyrst og fremst langar mig að brýna hæstv. forseta, sem hefur talað fyrir góðum vinnubrögðum á þinginu, að við verðum ekki sett í þá aðstöðu að fá hingað inn holskeflu þingmála á síðasta degi eða jafnvel eftir síðasta dag, samþykkt inn á dagskrá með afbrigðum, sem síðan verða afgreidd í allt of miklum flýti.

Þetta eru 100 þingmál og ég mælist til þess að skoðað verði hvort ekki megi endurskoða hina endurskoðuðu þingmálaskrá. Hér eru menn að færast um of í fang.