143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Líkt og aðrir þingmenn hér á undan mér langar mig að ræða störf þingsins og kannski sérstaklega þá skrýtnu stöðu sem er komin upp í störfum þingsins. Ef maður talar mannamál þá erum við svolítið að eyða tímanum hér, förum snemma heim og mál koma ekki frá ríkisstjórninni.

Nú segi ég eins og hv. þm. Helgi Hjörvar, flokksbróðir minn, að ég sakna ekkert voða mikið margra mála frá ríkisstjórninni en engu að síður sakna ég þess að ekki er komin skýrsla um utanríkismál og Evrópumál sem átti að koma í janúar eða um miðjan febrúar. Mér er sagt hér með ýmsum andlitshreyfingum að hún komi og ég vona sannarlega að hún komi.

Nú er líka ljóst að mikill meiri hluti þjóðarinnar vill samkvæmt skoðanakönnunum að aðildarviðræðum verði haldið áfram. Það væri náttúrlega alveg upplagt að bera það undir þjóðina í sveitarstjórnarkosningunum, þarf ekki að kosta neinu aukalega til. Ef andlitsmerki sem ég fæ héðan úr sal eru rétt hlýtur þessi skýrsla að vera á leiðinni og þá gæti fólk skoðað hana mjög vel áður en kemur til sveitarstjórnarkosninganna. Ég get því ekki séð að það sé neitt að vanbúnaði að fólkið í landinu fái að segja til um þetta mál þar sem það er tekið út af dagskrá. Alþingi hafði samþykkt að fara í ákveðinn leiðangur og síðan bara koma einhverjir menn, (Gripið fram í.) eitthvert fólk og ber það ekki einu sinni undir þingið hvort það eigi að hætta viðræðum sem Alþingi hafði á réttan og löglegan hátt samþykkt að ættu að fara fram. (Gripið fram í.)