143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að vekja athygli á Peningamálum Seðlabanka Íslands sem út komu í morgun. Það eru í sjálfu sér ekki stórtíðindi þar á ferð hvað horfur fram undan varðar en þó fremur jákvæðar en neikvæðar fréttir en ég tel tvímælalaust mestum tíðindum sæta að Seðlabankinn slær því nú föstu að hér hafi orðið um eða yfir 3% hagvöxtur á árinu 2013. Með öðrum orðum, batinn í efnahagslífinu undir lok síðasta kjörtímabils og út sl. ár var mun þróttmeiri en viðurkennt var, a.m.k. fyrir kosningar. Þetta þýðir t.d. að hagvöxtur á Íslandi varð að meðaltali um 2,4% árin 2011 til og með 2013. Það er ekki lakara en svo að frá því að hagkerfið sneri við undir lok árs 2010 og fram yfir kosningar og út þetta ár var að meðaltali um 2,4% hagvöxtur á Íslandi. Það er hollt fyrir þá sem tala eins og að það sé fyrst nú sem eitthvað horfir til betri vegar og þeim einum að þakka sem völdin fengu sl. vor að hafa þessar staðreyndir í huga.

Það er enginn vafi á því í mínum huga að sú fjárfestingaráætlun sem ríkisstjórnin setti í gang á árinu 2012 á sinn þátt í því að árið 2013 kemur svona vel út. Þess vegna hvet ég hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarliða til að vera nú nógu stórir í stykkinu og endurskoða afstöðu sína til aðgerða af því tagi sem voru í þeirri fjárfestingaráætlun og hefur greinilega skilað góðum árangri.

Af hverju ekki að halda áfram á sömu braut með hvetjandi aðgerðum og fjárfestingu í innviðum, rannsóknum, menntun og þróun, skapandi greinum, samgöngum o.s.frv. þannig að við hlúum að efnahagsbatanum og styðjum hann í stað (Forseti hringir.) þess að spóla þar til baka eins og ríkisstjórnin (Forseti hringir.) hefur gert?

Ég tel að þessar niðurstöður Peningamála Seðlabankans (Forseti hringir.) eigi að vera mönnum hvatning til þess að endurskoða þá afstöðu (Forseti hringir.) sem kom hér fram fyrir áramótin við afgreiðslu fjárlaga.