143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þm. Karls Garðarssonar var með slíkum ólíkindum í gær að eftir var tekið. Hann vísaði í ályktun flokksráðsfundar Vinstri grænna um nýliðna helgi þar sem fundurinn lýsti þeim vilja að ákærur á mótmælendur í Gálgahrauni yrðu afturkallaðar. Það er væntanlega réttur einstaklinga og samtaka þeirra að hafa skoðun á dóms- og ákæruvaldinu rétt eins og öðru valdi í samfélaginu.

Þingmanninum til upprifjunar eru samtök á heimsvísu sem fjalla fyrst og fremst um mannréttindi og athafnir dómsvaldsins á hverjum stað. Þau heita Amnesty International. Ef kosið er að kalla það íhlutun þegar slíkar andmælaraddir rata í samfélagsumræðuna má velta því fyrir sér hvað væri rétt að kalla afstöðu og framlag téðs þingmanns til umræðunnar. Hann vísar í þrískiptingu ríkisvaldsins eins og aðeins megi ræða hluta þess og væntanlega aldrei og alls ekki dómsvaldið.

Á hvaða villigötum er þingmaðurinn? Hann segir í ræðu sinni í gær að ályktun flokksráðsins hafi snúist um að færa dómsvaldið undir hið pólitíska vald. Er það svo? Nei, virðulegur forseti. Hér var verið að lýsa afstöðu stjórnmálahreyfingar. Í ályktuninni segir m.a., með leyfi forseta:

„Ákærurnar eru gróf árás á tjáningarfrelsi í landinu og aðför að lýðræðislegum rétti fólks til að mótmæla sem er tryggður í stjórnarskrá landsins. Ákærurnar fela í sér misbeitingu valds, slæmt fordæmi og eru jafnframt til þess fallnar að fæla fólk frá því að nýta stjórnarskrárbundinn rétt sinn til mótmæla.“

Samkvæmt afstöðu hv. þingmanns ætti væntanlega að þagga niður alla slíka umræðu, umræðu um tjáningarfrelsi, réttinn til að mótmæla og mannréttindi. Það er orðið nokkurt þrástef í pólitískri umræðu undanfarinna missira að einstakir fulltrúar Framsóknarflokksins telji sig þess umkomna að leggja á það dóma hvað megi ræða og hvað ekki. Af hverju má ekki ræða tilefnislausar handtökur á fólki sem var að mótmæla á friðsamlegan hátt? Raunar má velta því fyrir sér hvað það er sem gerir að verkum að þau sem mótmæla í nafni náttúruverndar séu hættulegri en aðrir mótmælendur og nánast skilgreindir sem óvinir ríkisins. Það mundi þá skýra offorsið við handtökurnar í Gálgahrauni og það mundi skýra offorsið í viðbrögðum hv. þingmanns.