143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða fyrirhugað afnám verðtryggingar á neytendalánum. Í umræðunni um þessa hluti er gjörn sú klisja að verðtryggingin sé ekki vandamálið, hún sé birtingarmynd verðbólgunnar. Klisjur verða oftast ekki til af engu, það er einhver sannleikur í þessu en sagan er ekki öll sögð.

Hvað þýðir þetta í raun og veru? Verðtryggð neytendalán eru hluti af tilbúnu kerfi þar sem neytendur taka langvarandi kostnað á sig tengdan almennum verðlagsbreytingum í skiptum fyrir lægri greiðslubyrði en borga á endanum fasteignir sínar of dýru verði. Það vantar í þessa sögu, þessa klisju.

Virðulegi forseti. Vextir eru afnotagjald fyrir peninga, vísitala er mælikvarði á verðlagsbreytingar og sá mælikvarði sem er lagður til grundvallar er í ofanálag bjagaður, ofreiknaður. Er það bara í lagi að heimilin taki á sig reikniskekkju, að líkindum 1–1,5% reikniskekkjuálag, á lánin? Ég tek fram að þetta hefur ekki verið rannsakað hér á landi. Nei, vil ég segja, þetta afleiðukerfi má og verður að afnema.

Vilhjálmur Birgisson leggur til í séráliti að verðtrygging nýrra neytendalána verði óheimil frá og með 1. júlí 2014. Ég skal ekki segja til um það hversu hratt við getum unnið þetta en um skaðsemi verðtryggingarinnar er hópurinn, meiri hluti og minni hluti, sammála.

Tækifærið er núna. Það er einsýnt þessu samkvæmt að fara verður í skuldaleiðréttingu og afnám verðtryggingar samhliða.