143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það eru ævintýralegar fréttir sem berast af lífeyrissjóðum landsmanna þessa viku og í síðustu viku. Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða boðaði þingmenn á sinn fund í hádeginu í gær þar sem farið var yfir stöðu sjóðanna.

Þar kom fram að 0,26% af heildareignum lífeyrissjóðanna eru rekstrarkostnaður. Heildareignir lífeyrissjóðanna eru 2.656 milljarðar og gerir því rekstrarkostnaðurinn 6,9 milljarða, tæpar 7 þús. milljónir. Títtnefndur Vilhjálmur Birgisson, sem minnst var á hér áðan, verkalýðsforingi af Akranesi, hefur sett fram á bloggsíðu sinni að þetta sé samanlögð sú upphæð sem fer í lögreglu og landhelgisgæslu samkvæmt fjárlögum 2014. Það eru óheyrilegar upphæðir sem lífeyrissjóðirnir taka í rekstrarkostnað, sérstaklega í ljósi þess að launþegar eiga sjóðina. Þeir virðast vera reknir, eins og hv. þm. Pétur Blöndal komst að orði í gær, eins og fé án hirðis því að ekki virðist vera fullt tillit tekið til aðhalds í rekstri.

Það sem hins vegar þarf að knýja á um nú, og spyrja stjórnir lífeyrissjóðanna um, er það hvort rekstrarkostnaður af eignum lífeyrissjóðanna erlendis sé inni í þessari upphæð og jafnframt hvort rekstrarkostnaður Framtakssjóðsins sé inni í þessum rekstrarkostnaði því að það liggur ekki alveg skýrt fyrir.

Að lokum ætla ég svo að lýsa furðu minni yfir sölu Framtakssjóðsins, sem átti sér stað í gær, á Icelandair. Þeir sömu aðilar sem seldu sjóðinn keyptu sjóðinn á uppsprengdu verði, þ.e. Landsbankinn og lífeyrissjóðirnir. Þar að auki sá Landsbankinn (Forseti hringir.) um söluna sem átti hlutinn áður og á hlutinn nú. (Forseti hringir.) Er þetta ekki eitthvað farið að minna á það sem gerðist hér (Forseti hringir.) fyrir nokkrum árum?