143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

heilbrigðisþjónusta og sjúklingagjöld.

[15:51]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Herra forseti. Það er alltaf hálfóþægilegt að tala um heilbrigðiskerfið og heilbrigðismál út frá peningum og krónum og aurum, en meðan við búum við peningahagkerfi sem gengur á krónum og aurum komumst við ekki hjá því.

Það er alltaf mikilvægt þegar við ræðum rekstur að jafnvægi í rekstri næst í samspili kostnaðar annars vegar og tekna hins vegar, þ.e. plús og mínus. Þetta er grunnskólastærðfræði.

Mér finnst við oft hafa tilhneigingu þegar við erum að ræða okkar flóknustu kerfi eins og heilbrigðiskerfið til að einblína á annað hvort í einu. Ég held að við séum öll sammála um að í heilbrigðiskerfinu hafi verið gengið mjög langt, og allt of langt, í flötum niðurskurði. Það er nokkuð augljóst og hefur komið ítrekað fram í umræðum á þinginu.

Ég kalla dálítið eftir því að við skoðum kerfið í grunninn, skoðum hvernig kostnaðurinn verður til. Eru fyrirbyggjandi aðferðir við að styrkja heilsugæsluna til dæmis líklegar til að minnka kostnað annars staðar? Nú hefur í tíu ár eða lengur verið unnin mjög mikil vinna við að skoða uppbyggingu á nýju hátæknisjúkrahúsi eða nýjum landspítala. Sú vinna hefur leitt í ljós ítrekað og mjög vel rökstutt að það að byggja nýjan spítala muni framkalla mikinn sparnað í kostnaði. Mér finnst vanta inn í heildarmyndina að við tökum umræðuna um hvort sá sparnaður sé mögulegur. Ætlum við að láta slag standa og ná í þann sparnað eða ætlum við að hunsa þann möguleika?