143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

heilbrigðisþjónusta og sjúklingagjöld.

[15:56]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þetta eru þarfar umræður. Ég er sammála því að nauðsynlegt sé að ræða um hinn nýja ríkisspítala og tilvísunarkerfið og heilsugæslurnar í því samhengi þegar verið er að fara yfir kerfisumbætur. Ég er alveg sammála því að við þurfum að laga kerfið okkar. Vitað er að það er ekki bara í heilbrigðiskerfinu sem kerfið er orðið svo meingallað að það er hætt að virka fyrir þá sem þurfa hvað mest á því að halda, það er meingallað í öllum geirum.

Ég vona að þeir sem eru að endurskoða þetta kerfi séu ekki að endurskoða það heldur hugsa það upp á nýtt og hugsa til langs tíma. Kostnaðurinn sem er til staðar, bæði í lífeyriskerfinu og heilbrigðiskerfinu, gæti hæglega farið algjörlega úr böndunum. Hver er sýnin? Viljum við hafa heilbrigðiskerfi sem er þannig að þeir sem verða sjaldan veikir borgi mest og þeir sem verða oft veikir borgi minnst? Er það endilega réttlátt?

Viljum við hafa þannig kerfi að það sé að hluta til einkavætt eða viljum við hafa kerfi sem er ekki neitt einkavætt? Þetta eru grundvallarspurningar sem við þurfum væntanlega að ræða þegar við fáum tillögur nefndarinnar inn á borð til okkar.

Hver er munurinn á því að vera rukkaður fyrir að liggja í rúmi eða mæta á göngudeild? Hver er munurinn á því að hækka komugjöldin um 20% til heilsugæslunnar þar sem við ættum í raun og veru að byrja að spara með því að senda fleiri þangað. Er einhver munur þar á?

Ég hvet til þess að við förum mjög varlega í þessar (Forseti hringir.) viðamiklu kerfisumbætur út af því að heilbrigðiskerfið er dýrasti liðurinn í útgjöldum ríkisins.