143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

almenningssamgöngur.

[16:30]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu máli. Ég tek undir nánast hvert einasta orð sem hún lét hér falla.

Árið 2011 var lögum um fólks- og farmflutninga á landi breytt svo Vegagerðinni var heimilt að fela Samtökum sveitarfélaga að sjá um almenningssamgöngur á sínu starfssvæði. Rökin voru þau að sveitarfélög þekktu best þörfina innan svæðismarka sinna og gætu best nýtt fé almennings til hagsbóta. Almenn ánægja er með þetta fyrirkomulag hjá almenningi. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum fór í kjölfarið í útboð á akstursleiðinni Flugstöð–Reykjavík, en hagsmunaaðilar í hópferðaþjónustu hafa barist gegn því að leiðin sé skilgreind sem almenningssamgöngur og vilja hafa óhefta samkeppni. Samkeppniseftirlitið hefur gefið út álit sem styður sjónarmið hópferðafyrirtækjanna og nú hefur Vegagerðin afturkallað sérleyfi SSS á leiðinni svo að nú eru almenningssamgöngur á Suðurnesjum sem og á landinu öllu í uppnámi.

Í áliti Samkeppniseftirlits kemur meðal annars fram að sérleyfi SSS á Flugstöð–Reykjavík-leiðinni sé skaðlegt samkeppni og leiðin eigi að vera opin öllum. Í því áliti er gengið út frá því að umrædd leið sé ekki almenningssamgöngur heldur ferðaþjónusta. Þar segir einnig að óheimilt sé samkvæmt Evrópurétti að nýta leiðir er skila hagnaði til að bæta þjónustu á öðrum leiðum.

Á öllum hinum Norðurlöndunum, eins og hv. málshefjandi ljáði máls á hér áðan, eru akstursleiðir frá alþjóðaflugvöllum taldar hluti af almenningssamgöngum, enda hefur almenningur hag af hagkvæmum og greiðum samgöngum á alþjóðaflugvöll. Í þessu samhengi má einnig benda á að Strætó bs. notar t.d. leiðina Hafnarfjörður–Hlemmur til að standa undir kostnaði við aðrar leiðir. Engum þykir það neitt tiltökumál. Það hefur aldrei staðið til hjá SSS að nota hagnað af umræddri akstursleið inn í almennan rekstur sveitarfélaga, heldur til að standa undir öðrum óarðbærum leiðum.

Ég er ánægð að heyra hæstv. innanríkisráðherra (Forseti hringir.) tala um að hún sé að fara nánar ofan í þetta mál. Ég fagna því mjög. (Forseti hringir.) Ég brýni hana í því að klára þetta mál með hag almennings (Forseti hringir.) að leiðarljósi og ná sátt við (Forseti hringir.) íbúa á Suðurnesjum.