143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

almenningssamgöngur.

[16:33]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ný stefna í almenningssamgöngum var tekin í nýjustu samgönguáætlun og hefur haft veruleg áhrif á samgöngur í landinu, val íbúa og möguleika. Það má segja að ný hugsun hafi komið fram og ný tækifæri. Samtök sveitarfélaga fengu það verkefni í samstarfi við Vegagerðina að bjóða upp á almenningssamgöngur í hverjum landshluta og að sameina þjónustuna á milli svæða þannig að það myndaðist heildstætt leiðakerfi og öflugri þjónusta. Sveitarfélögin í landinu hafa tekið þetta verkefni mjög alvarlega og gert vandaðar áætlanir og eflt almenningssamgöngur gríðarlega. Þetta var eitt af verkefnum sóknaráætlunar víða og leiddi til samvinnu ólíkra aðila varðandi flutning á fólki vegna skóla og/eða vinnu. Því ber að fagna að þessu verkefni var haldið áfram þrátt fyrr að margt annað gott væri skorið niður af núverandi ríkisstjórn.

Ekki þarf að hafa mörg orð til að lýsa þjóðhagslegri hagkvæmni slíkra almennra samgangna. Bæði er þetta umhverfismál. Þetta er jákvætt fyrir byggðaþróun. Þetta er sparnaður fyrir heimilin því að það má ekki gleyma því að það er einn stærsti útgjaldaliður í heimiliskostnaðinum, það er bíllinn og flutningar. Þetta eykur fjölbreytni í ferðavali. Þetta er gott líka fyrir innlenda og erlenda ferðamenn sem eiga að geta farið á fleiri staði og ferðast með ódýrari hætti.

Það er því gríðarlega mikilvægt að þessu verði haldið áfram og menn finni lausnir á þeim agnúum sem hafa komið upp varðandi þetta fyrirkomulag og það að tryggja að það verði sérleyfi á þessum leiðum sem tryggi að þessir þættir standi undir sér. Ef flugvallarleiðin inn í bæinn verður tekin af Suðurnesjum má búast við því að leiðin frá Sandgerði yfir í Grindavík leggist af, menn hafi ekki efni á að reka hana. Þannig er það víðar á landinu að menn verða að nota þessa öflugu leggi til þess að fjármagna kostnaðinn að öðru leyti.

Ég heiti á ráðherra að tryggja að þetta verði skoðað og látið reyna á það eins langt og hægt er að tryggja að þetta verði hægt, þ.e. með lögum og reglum sem við getum sett hér og með undanþágum ef á þarf að halda frá Evrópureglum.