143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

almenningssamgöngur.

[16:35]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Það er svolítið undarlegt að heyra ræðu hv. málshefjanda og annarra sem hafa tekið til máls. Hvers eru þeir að krefjast? Eru þeir að krefjast þess að ráðherra fari ekki að lögum? Hunsi ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins? Um hvað eru menn að tala? Eru menn að halda því fram að leiðin Flugstöð Leifs Eiríkssonar–Reykjavík sé hluti af almenningssamgöngum Suðurnesjamanna? (Gripið fram í: Já.) Nei. (Gripið fram í: Jú, jú.) Auðvitað er það ekki þannig. Þetta er hagsmunamál okkar allra. Það er ekkert sérmál sveitarfélags á Suðurnesjum að hafa einkaleyfi á þeirri leið til að niðurgreiða aðrar almenningssamgöngur innan sveitarfélagsins. (Gripið fram í: Jafna kostnað.) Ég veit það, jafna kostnað. En hver borgar þann kostnað? Það eru neytendur sem ekki fá að njóta eðlilegrar samkeppni á leið sem borgar sig. (Gripið fram í: Allt í lagi í Reykjavík?)

Hvað eru menn að biðja um? Eru menn að biðja um að ekki sé farið að lögum? (Gripið fram í: Það er búið að rekja það allt saman.) Er alltaf verið að tala um að við gerum bara eitthvað eftir eigin geðþótta? Nei. Hættum því.

Staðreyndin er þessi: Þetta er leið frá flugstöð. Þetta er hluti af samgöngum vegna ferðaþjónustu. (Gripið fram í: Nei.) Þetta á auðvitað ekki að vera einkamál Suðurnesjamanna, ekki frekar en flug til og frá landinu af því að flugstöðin er á Suðurnesjum. Hvaða rugl er þetta? Hver fann þetta upp? Þetta er algjör vitleysa. Af hverju fáum við ekki bara einkaleyfi á flugi til og frá landinu? Kannski góð hugmynd. En þetta er eins og hver önnur della í mínum huga.

Við eigum að hugsa um neytandann sem kemur til landsins og fer út úr landinu, sem fær þessa þjónustu (Forseti hringir.) og að hann fái að njóta samkeppni á þessum markaði.