143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

umferðarlög.

284. mál
[17:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra kann kannski að farast létt að gera grín að mér með það hversu erfiðlega mér gekk að taka ökupróf, og fúslega geri ég þá játningu að ég held ég hafi verið búinn að læra á bíl í eitt og hálft ár þegar kom kosningabarátta og ég varð síðar umhverfisráðherra. Ég gerði hlé á námi mínu í eitt ár [Hlátur í þingsal.] til þess að geta einbeitt mér að kosningabaráttunni. Hún fór hins vegar vel og að lokum bílprófið líka.

Það er kannski einmitt vegna þessarar reynslu minnar úr fortíðinni að ég geri mér grein fyrir því að þeir sem hafa nýtt sér hjól af þessu tagi hugsa ekki endilega allir létt til þess að þurfa að taka bílpróf.

Þess vegna langar mig til að spyrja ráðherra hvort henni gæti hugnast sú leið að í stað þess að setja einhver sérstök próf — ég tek eftir því að hún talaði ekki um hefðbundin próf heldur einhvers konar próf — mætti setja t.d. aldurstakmark, þannig að þeir sem væru búnir að vera á þessum hjólum og hefðu náð ákveðnu aldurstakmarki mættu vera á þeim áfram væru þeir komnir á tilskilinn aldur.