143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

umferðarlög.

284. mál
[17:05]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa yfirferð og þessar umræður. Mig langaði að benda á þær heimildir sem verið er að veita umferðareftirlitsmönnum Samgöngustofu í frumvarpinu. Með þeirri leið sem rædd hefur verið, að færa umrætt umferðareftirlit yfir til lögreglunnar aftur á ný, eru allar heimildirnar til staðar og þessar breytingar óþarfar. Ég held að eftirlitið muni verða miklu markvissara og árangursríkara.

Mig til að spyrja: Þurfa þeir sem komnir eru með svokallaðar rafmagnsvespur í dag að undirgangast þetta? Verður eitthvað lengri aðlögunartími fyrir þá og annað slíkt? Ég skal viðurkenna að það leit ekki vel út þegar rafmagnsvespurnar komu út á göturnar, en það er ekki víst að tilvikin séu svo alvarleg í raun þar sem þessi hjól fara nú oft hægar yfir en mörg reiðhjól. Við þurfum því aðeins að hugsa málið með tilliti þess hagræðis sem orðið hefur fyrir foreldra og fleiri með tilkomu þessara hjóla.

Mig langar einnig að spyrja um 2. gr. frumvarpsins þar sem farþegar þurfa að vera orðnir 150 sentimetrar á hæð til þess að vera aftan á bifhjóli öðru en léttu bifhjóli. Af hverju er það til komið? Hefur það verið vandamál þegar ökumenn bifhjóla eru með börnin sín eða aðra á hjólunum?

Í lokin langar mig að spyrja: Er einhver möguleiki á að bæta einhverju nýju við, þörfum málum eins og að lækka leyft áfengismagn í blóði niður í 0,2 prómill eins og lagt er til í umferðarlögunum, sem er mjög þörf breyting? Gæti það átt heima í þessu frumvarpi?