143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

umferðarlög.

284. mál
[17:25]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur flutt frumvarp um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum (EES-innleiðing o.fl.). Það er rétt að vekja athygli á því að í því felst fleira en EES-tilskipanir eða EES-innleiðingar.

Ég hlustaði á rök hæstv. ráðherra fyrir hinu mikla og góða frumvarpi um heildarendurskoðun umferðarlaga sem hófst í tíð minni sem samgönguráðherra og var flutt nokkrum sinnum af hv. þm. Ögmundi Jónassyni, þá hæstv. innanríkisráðherra, en var aldrei klárað hér. Þetta er stór og mikill lagabálkur sem miklir og góðir sérfræðingar unnu. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra sagði að það hefði verið vegna álags í þinginu, ef ég skildi hana rétt, að það frumvarp væri ekki flutt núna. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra út í það hvort ekki megi treysta því að hún sem ráðherra flytji frumvarp um ný umferðarlög strax á næsta þingi, næsta haust.

Margt hefur breyst frá því að frumvarpið var upphaflega samið sem sést af þeim frumvörpum sem flutt voru á seinni þingum, eins og í lokin þegar málið var flutt að mig minnir á 141. þingi, þá kom inn ákvæði um létt bifhjól. Frá því að byrjað var að endurskoða umferðarlögin var það ákvæði ekki þar inni. Það var einfaldlega vegna þess að þessi hjól voru ekki komin til landsins og jafnvel ekki til, ég veit það ekki, en ákvæðið kom sem sagt þá fyrst inn.

Það sem ég vil hvetja hæstv. ráðherra til og spyrja út í er hvort ekki megi treysta því að frumvarp um ný umferðarlög verði flutt strax við upphaf næsta þings. Þetta er stór og mikill lagabálkur sem þinginu veitir ekki af heilum starfsvetri til að klára eins og sagan segir okkur. Ég held að okkur sé ekkert að vanbúnaði að klára ný umferðarlög þó að auðvitað séu þar inni umdeild ákvæði. Sá sem hér stendur ákvað að flytja frumvarpið óbreytt eins og það kom frá nefndinni, þ.e. með mörgum álitamálum. Hugsunin var að Alþingi ræddi og færi í gegnum þau og kæmist að niðurstöðu þar um. Nefni ég t.d. ökuleyfisaldurinn og leyft áfengismagn í blóði sem átti að lækka og hv. þm. Vilhjálmur Árnason spurði hæstv. ráðherra út í hér áðan. En eins og ég segi má margt laga af lögunum frá 1987.

Við þá lagfæringu sem gerð er núna á nokkrum greinum umferðarlaga hafa menn rætt dálítið um létt bifhjól. Ég hef svo sem ekkert að athuga við þær lærðu og fullkomnu ræður sem hér hafa verið fluttar, t.d. af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem ræddi þetta af mjög mikilli þekkingu áðan. Ég get tekið undir allt sem hann sagði. Hér er sem sagt verið að bregðast við því sem við köllum létt bifhjól í dag sem eru rafknúin og ná einungis að hámarki 25 km hraða á klukkustund. Ég vil taka undir það sem ráðherrann sagði áðan um að þess yrði ekki krafist að menn hefðu fullgild ökuskírteini til að aka þeim hjólum heldur ákveðið próf. Ég vildi koma inn í þessa umræðu og ítreka þetta fyrir nefndina — ég verð að segja að ég sakna þess að ekki skuli vera fleiri fulltrúar úr umhverfis- og samgöngunefnd við 1. umr. en raun ber vitni, hv. þm. Vilhjálmur Árnason er eini þingmaðurinn sem er við þessa umræðu. Við 1. umr. eru sjónarmið reifuð sem eiga að nýtast nefndinni í vinnu sinni. Þess vegna vildi ég taka undir þetta atriði hér.

Ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson gat um hér áðan sem er kannski merki um hvað margt breytist hratt. Annars vegar er talað um létt bifhjól í flokki I, þau sem við þekkjum og fólk notar í dag, þ.e. hægfara vespur eins og við kölluðum þau í gamla daga, rafmagnshjól. Það sem hv. þingmaður gat hins vegar um hér áðan og vert er að skoða er að menn geta tekið hefðbundið reiðhjól, keypt á það mótor sem er hengdur á það rétt eins og við sjáum stundum í bílakjallara Alþingis, einhverjir starfsmenn eða þingmenn nota þannig hjól, setja mótorinn á það, þess vegna bara með teygjum aftan á bögglaberann, og þessi hjól geta náð sama hraða. Þá er spurning, hvað á að gera við þau? Ég held að það eigi ekki að setja allt of miklar hömlur á það hverjir geti notað þessi hjól. Ég tek þó skýrt fram, alveg eins og hv. þingmaður gerði, að auðvitað ber að tryggja svona hjól þannig að þau séu tryggð í umferðinni. Verði skaði af slíku hjóli í árekstri er nauðsynlegt að ábyrgðartrygging viðkomandi hjóls sé til staðar til að bæta það tjón sem verður á hinu ökutækinu.

Ég er líka mjög hugsi yfir því sem ég hef séð, sem betur fer bara á gangstígum á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að þeir eru margir hverjir orðnir mjög góðir, þökk sé bæjar- og borgaryfirvöldum vegna þess að stórkostlegt átak hefur verið unnið í þeim efnum, en þar finnst mér ég hafa séð það sem ég mundi kalla börn á slíkum hjólum, 12 ára börn. Ég er ekki sammála því að það sé rétt en hvert aldurstakmarkið á að vera er aftur nokkuð sem okkur ber að skoða, hvort við eigum að setja lágmarksaldur á slík hjól. Ég tel að það sé atriði sem við eigum líka að skoða.

Virðulegi forseti. Það er flókið mál að fara í gegnum umferðarlög og þær reglugerðir sem hafa verið settar. Ég hef til dæmis undir höndum reglugerð um ökuskírteini sem sett var í innanríkisráðuneytinu 25. ágúst 2011, undirrituð af þáverandi ráðherra, Ögmundi Jónassyni. Það er mjög flókið að fara í gegnum hana. Ég hvet hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að fara í gegnum þá reglugerð vegna þess að í henni kemur fyrst inn, að mínu viti, ákveðin flokkun á ökuréttindum. Þar er talað um eitthvað sem kallast AM-flokkur og fjallar um létt bifhjól. Í flokki L1e og L2e, sem ég finn ekki hvað er, er fjallað um að farartæki sem er hannað til að ná 45 km aksturshraða á klukkustund. Síðan getur maður farið í gegnum þessa flóknu reglugerð en ég get ekki séð hvernig hefur verið brugðist við þessu.

Ýmis önnur ákvæði í þessu frumvarpi virðast mér við fyrsta yfirlestur vera til bóta. Önnur eru ef til vill íþyngjandi, eins og endurmenntun þeirra sem hafa meira próf.

Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls í 1. umr. en umræðan var bara svo skemmtileg, þess vegna vildi ég koma hingað upp og fjalla um þetta. Það er sannarlega ástæða til að taka á nokkrum þáttum í umferðarlögum sem hæstv. ráðherra hefur kosið að gera strax með þessu frumvarpi en önnur atriði orka tvímælis sem ég hvet, eins og ég sagði, hv. umhverfis- og samgöngunefnd að taka til skoðunar. Ég treysti því að hv. þm. Vilhjálmur Árnason, sem situr í salnum og hlustar á þessa umræðu, taki það að sér að bera þau álitamál til umhverfis- og samgöngunefndar þegar hún fer að vinna þetta frumvarp.

Þessi sjónarmið vildi ég, virðulegi forseti, að kæmu hér fram við 1. umr. þar sem ég á ekki sæti í umhverfis- og samgöngunefnd.