143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

umferðarlög.

284. mál
[17:34]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka umræðuna sem hefur farið hér fram og verið gagnleg og athyglisverð fyrir margra hluta sakir.

Mig langar að byrja á að svara því sem ég get svarað hér og nú, um aðrar upplýsingar sem var sérstaklega spurt um og lúta að tölfræði um hjólin sem verða núna skilgreind með öðrum hætti, rafhjólin. Ég skal koma þeim óskum áleiðis og hef þegar gert það til ráðuneytisins og óska eftir því að tekin verði saman gögn fyrir þingmenn hvað þau varðar.

Það er staðreynd eins og nefnt hefur verið í umræðunni að þessi hjól sem nú verða skilgreind sem létt bifhjól eða rafhjól eru tiltölulega ný. Löggjöfin hefur þess vegna ekki tekið mið af þeim og ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, og þakka honum brýninguna, að það er mikilvægt að við gætum þess að fara ekkert lengra en nauðsynlegt er. Þegar þetta var samið og ég fór yfir verkefnið í ráðuneytinu vöknuðu sömu spurningar hjá mér og hafa verið í umræðunni í dag en þetta er allt gert á grundvelli þess og öll rökin liggja að því að þetta sé nauðsynlegt til að tryggja aukið öryggi. Hv. þm. Kristján L. Möller nefndi t.d. áðan að börn séu ekki of ung á hjólunum o.s.frv., og það þarf að tryggja að hjólin sé nýtt þannig að öryggið sé tryggt. En ég brýni okkur í því og brýni sjálfa mig í því að ganga ekki harðar fram en nauðsynlegt er.

Ég tek undir það sem menn hafa sagt varðandi ökuskírteini og fyrirkomulag þeirra og þá sem fá réttindi til að aka þessum léttu bifhjólum, ég tek undir það allt saman. Ég treysti því að það verði tekið til sérstakrar skoðunar í nefndinni og get fullvissað menn um að vilji þessa ráðherra er ekki sá að ganga lengra en nauðsynlegt er í því að smíða löggjöf í kringum þetta þannig að það verði allt rétt og farsællega gert.

Það var gaman að hlusta á ræðurnar og ég er ekki viss um að mörgum öðrum þingmönnum en hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni takist að lýsa reiðhjólaferðum sínum með eins lifandi og áhrifaríkum hætti og hér var gert. Það er ljóst að hv. þingmaður getur, ef ég man það rétt, komist alla vega í smástund upp í 25 kílómetra hraða sem er auðvitað talsvert. Við skulum taka mið af því og ég er reiðubúin í þá vinnu.

Hvað varðar spurningu frá hv. þm. Kristjáni L. Möller um umferðarlögin og endurskoðun þeirra: Jú, það er stefnt að því í ráðuneytinu og undirbúningur hafinn að því. Vinnan er nokkuð langt komin varðandi það frumvarp eins og hv. þingmaður vísaði til, bæði frá hans tíð sem samgönguráðherra og eins frá tíð fyrrverandi innanríkisráðherra. Miðað er við að frumvarp til nýrra umferðarlaga verði flutt í byrjun næsta þings. Ástæðan fyrir því að við töldum að farsælla væri að gera þetta þannig er að mörg stór frumvörp liggja fyrir þinginu er varða málefni innanríkisráðuneytisins. Það var talið farsælla að reyna að koma þeim frá auk þess sem þingið þarf auðvitað að huga að málum er tengjast risastórum málum eins og skuldamálum heimilanna o.s.frv. Niðurstaðan varð því sú að frumvarpið yrði flutt í byrjun næsta þings. Allar okkar áætlanir miða við það.

Varðandi það sem nefnt var af hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur um endurmenntun og hvernig því yrði fylgt eftir að aðilar, atvinnubílstjórar er kæmu erlendis frá, hefðu tilskilin réttindi þá er það bara nákvæmlega sams konar eftirlit og hér er viðhaft. Þessar reglur eru samevrópskar. Þær kröfur sem gerðar eru um endurmenntun atvinnubílstjóra ganga yfir bílstjóra sem koma annars staðar frá. Það er hluti af því að þeir fái ökuskírteini. Það kemur fram á ökuskírteinum þeirra og verður þannig. Margar þjóðir í Evrópu hafa fylgt því fast eftir og innan Evrópusambandsins þannig að eftirlit með því er með hefðbundnum hætti og við eigum von á því að því verði fylgt eftir hér. Hins vegar árétta ég það sem ég sagði áðan að samkvæmt þessu frumvarpi munum við ekki innleiða þessar reglur fyrr en árið 2018 sem gefur okkur nokkuð góðan tíma til að fara yfir einstaka þætti í því.

Annað sem hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir nefndi var fræðsla um umferðaröryggismál, upplýsingar og umræðu. Ég tek undir allt sem hv. þingmaður sagði í því og mikilvægi þess. Ég get sannfært hana um að sú skýrsla sem hún vitnaði til frá árinu 2012 hefur mikið verið nýtt og unnið með í innanríkisráðuneytinu og hún er eitt af þeim gögnum sem eru undirstaða þeirrar endurskoðunar umferðarlaga sem ég hef gert grein fyrir að muni verða mælt fyrir í upphafi næsta þings. Allt sem þingmaðurinn nefndi í því samhengi og í umferðaröryggisátaksmálum, ef við getum kallað það svo, er hluti af því enda er það orðið mjög brýnt mál, risastórt mál. Um leið og ég vona að við afgreiðum þær innleiðingar og breytingar sem felast í þessu frumvarpi vona ég að góð sátt náist um heildarendurskoðun á lögunum sem yrði mælt fyrir í byrjun næsta þings.