143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

kyrrsetning, lögbann o.fl.

281. mál
[17:40]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., með síðari breytingum.

Flutningsmenn eru ásamt mér hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Róbert Marshall og Birgitta Jónsdóttir.

Frumvarpið er einfalt og stutt og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. gr.

2. tölulið 3. mgr. 24. gr. laganna orðast svo: ef sýnt þykir að lögbannið valdi gerðarþola skaða eða óhagræði sem bersýnilega er ekki í réttu hlutfalli við hagsmuni lögbannsbeiðanda af því að lögbannsbeiðni nái fram að ganga.

2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Lengi hefur verið stuðst við þá kenningu að hagsmunamat takmarki svigrúm til að leggja á lögbann. Lögmæti eða ólögmæti athafnar hefur þá ráðist af hagsmunamati þar sem vegnir og metnir hafa verið hagsmunir þess sem hefst að og hagsmunir þess sem telur athöfn raska rétti sínum. Sumir hafa bent á að miklir og yfirgnæfandi hagsmunir framkvæmdaraðila gætu gert athöfn löglega á þann hátt að fjárhagslegir yfirburðir hans gætu gert að engu eignar- og umráðarétt þess sem fyrir tjóni hefur orðið vegna framkvæmdarinnar. Lagabreytingin, sem þetta frumvarp miðar að, felst í því að afnema þá skipan að fjárhagslegir yfirburðir hafi áhrif á það hvort lögbannsbeiðni nái fram að ganga.

Sigurður Gizurarson hæstaréttarlögmaður benti á það í greininni „Gálgahraun og peningar“, sem birtist í Morgunblaðinu 29. nóvember 2013, að 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 skyldar sýslumann til þess að synja um kröfu um lögbann við tiltekinni framkvæmd ef hagsmunir framkvæmdaraðila eru miklir og reidd er fram trygging fyrir hugsanlegu tjóni af lögbanninu. Veldur þetta því, að mati lögmannsins, að fjárhagsleg sjónarmið ber hærra en önnur sjónarmið við mat á forsendum lögbanns og fjárstyrkur ræður því í raun í íslenskum rétti hvort aðili fær varist lögbanni eða ekki.

Ákvæði þess efnis að hagsmunamat geti leitt til þess að lögbann verði talið ólögmætt og setningu þess hafnað er að finna í norskri og danskri löggjöf. Í bæði norskum og dönskum lögum er mælt fyrir um þetta í sérstökum ákvæðum en í þeim ákvæðum er innleidd meðalhófsregla í lögbannsákvæðin sem gerir stjórnvaldi skylt að vega og meta hagsmuni gerðarbeiðanda og gerðarþola með tilliti til áhrifa lögbannsins. Danska ákvæðið er talið undantekningarákvæði sem einungis verði beitt þá sjaldan verulegur munur reynist vera á hagsmunum lögbannsbeiðanda af því að fá lögbanni komið á og þeim skaðlegu afleiðingum sem lögbannið veldur gerðarþola. Þetta mat skal fara fram án tillits til getu gerðarbeiðanda til að leggja fram tryggingu. Verði frumvarp þetta að lögum, sem hér er mælt fyrir, verður sami háttur tekinn upp í íslenska löggjöf og fortakslausu skylduákvæði breytt í heimildarákvæði. Með því verður dregið úr áhrifum peningavalds á lögbannsbeiðnir og möguleikar sýslumanns á að leggja á þær hlutlægt mat auknir.“

Virðulegur forseti. Þetta snýst um tvennt í mínum huga. Í fyrsta lagi að draga úr vægi fjármagns og peningaafla á hagsmunamat sem þarna er undir og hins vegar að færa íslenska löggjöf að því er varðar lögbann í átt til þess sem gerist í nágrannalöndum okkar og í samræmi við það sem þar er gert.

Ég vil í þessu efni þakka sérstaklega Sigurði Gizurarsyni hæstaréttarlögmanni fyrir að benda á þessa einföldu leið, ef svo má að orði komast, til að styrkja rétt almennings frammi fyrir framkvæmdaraðilum og peningaöflunum þegar annars vegar eru ríkir hagsmunir aðrir, eins og til að mynda hagsmunir sem varða náttúruvernd og/eða ríka almannahagsmuni. Þetta snýst um það að löggjöfin taki sér stöðu fremur með þeim heildar- og almannahagsmunum, náttúruverndarhagsmunum, en þeim sem því miður eru stundum betur varðir í íslenskri löggjöf, sem eru hagsmunir þeirra sem hafa nóg á milli handanna.

Þó að tilefni lögmannsins sé í sjálfu sér Gálgahraunsmálið svokallaða erum við hér að tala um breytingar á löggjöf sem kæmu til skoðunar þegar um væri að ræða svipuð eða sambærileg mál í framtíðinni og er í mínum huga fyrst og fremst tiltekt í lagaumhverfi okkar og ekki síður það sem hér hefur verið fjallað um, þ.e. að styrkja stöðu almennings og náttúruverndar í löggjöfinni.