143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra.

282. mál
[17:46]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um skipun starfshóps til að endurbæta löggjöf um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra.

Í þingsályktunartillögunni segir:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að skipa starfshóp sem endurskoði og endurbæti löggjöf með tilliti til verndar, velferðar og veiða villtra fugla og spendýra á Íslandi. Starfshópurinn taki mið af tillögum og ábendingum í skýrslunni Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra sem kom út vorið 2013.“

Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem hér um ræðir og er vísað til er endapunktur á gríðarlega mikilli vinnu þar sem starfshópur á vegum þáverandi umhverfisráðherra, þeirrar sem hér stendur, lauk ítarlegri yfirferð yfir lagalega og stjórnsýslulega stöðu málaflokksins, auk þess að leggja fram tillögur um úrbætur. Hér er farið yfir sögulegt yfirlit um lagalega stöðu villtra dýra, það er farið yfir stöðu bæði spendýra á landi og í sjó, það er farið yfir stöðu fugla, það er farið yfir veiðitæki og veiðiaðferðir, það er farið yfir velferð þessara dýra sérstaklega og innflutning.

Það er farið yfir þá alþjóðlegu samninga sem við eigum aðild að og höfum fullgilt og aðra alþjóðlega samninga sem varða starf nefndarinnar og það lagaumhverfi sem hér er undir. Það er farið yfir alþjóðlegt samstarf í umhverfismálum, sem er töluvert, og það er farið yfir þær skilgreiningar sem eru undir í núverandi löggjöf og í lagaumhverfinu í heild. Það er farið yfir markmið og gildissvið svokallaðra villidýralaga. Loks er farið yfir umsjón með málefnum villtra dýra, stjórnsýslu þá sem er fyrir hendi nú þegar. Það er farið yfir vernd búsvæða mismunandi tegunda, vernd gegn ofveiði, vernd fyrir mengun, vernd gegn ágengum tegundum, vernd fyrir gælu- og húsdýrum, vernd fyrir atvinnustarfsemi, vernd fyrir umferð. Það er farið yfir friðun einstakra tegunda, það er farið yfir friðun einstakra svæða, það er farið yfir velferðarmál villtra dýra og þau atriði sem tengjast sérstaklega veiðum. Það er jafnframt skoðað sérstaklega hér lagaumhverfi það sem lýtur að sjávarspendýrum, bæði sel, rostung og hval. Það er farið yfir þær rannsóknir sem eru til og eru lagðar hér til grundvallar á villtum dýrum í tengslum við veiðar og vernd. Það er farið yfir umræðu um almenningsfræðslu og umhverfisvitund og loks er farið yfir eftirlit með og brot á villidýralögum og þær heimildir sem eru fyrir hendi í lögum og þær umbætur sem eru þar fyrirhugaðar eða lagðar til af hendi nefndarinnar.

Formaður nefndarinnar og þessa mikla verks er Menja von Schmalensee, en hún er líffræðingur og sviðsstjóri Náttúrustofu Vesturlands, og þetta er gríðarlega mikil og metnaðarfull vinna sem liggur hér til grundvallar. Þetta er vinna sem að mörgu leyti svipar til þeirrar vinnu sem stundum er kölluð hvítbók um náttúruvernd, þ.e. sú leið að fara ítarlega yfir lagalegt umhverfi og lagalega umgjörð málaflokksins í heild áður en hafist er handa við endurskoðun á löggjöf. Þetta er skyldara því sem venjan er að gera á Norðurlöndum, skyldara þeirri aðferð en þeirri sem við höfum yfirleitt viðhaft hér á Íslandi, sem hefur verið svona með skemmri tilhlaupum, ef svo má að orði komast, þar sem löggjöfin er gjarnan smíðuð við þrengri aðstæður.

Að vinnunni komu tilnefndir fulltrúar frá Dýralæknafélagi Íslands, frá Umhverfisstofnun, frá Fuglavernd, frá Náttúrufræðistofnun, frá Háskóla Íslands, Skotveiðifélaginu, Skotvís, og svo frá rannsóknarsetri Háskólans á Suðurlandi, sem var tilnefndur af frjálsum félagasamtökum á sviði náttúruverndar, auk þess sem ritari umhverfis- og auðlindaráðherra var starfsmaður nefndarinnar, Þórunn Elfa Sæmundsdóttir. Ég vil sérstaklega nota þetta tækifæri til að ítreka þakkir mínar og allra þeirra sem fara með umhverfis- og náttúruverndarmál á Íslandi og umgengni um okkar villtu dýrategundir. Vinnan er gríðarlega mikilvæg og ég vonast til þess að hún verði notuð og lögð til grundvallar við endurskoðun löggjafarinnar. Nú kann einhverjum að finnast það kúnstugt að ég sé að leggja þetta til hér, en það er verra með vinnu eins og þessa að hún sé sett á hilluna af því að það verða kosningar og einhvers konar þáttaskil, vegna þess að þessi vinna er óháð kosningum. Hún er óháð því hver situr í stóli ráðherra á hverjum tíma og við eigum að sýna svona vinnu þann sóma að virða samfelluna í málinu og byggja á þeim dýrmæta grunni sem þessi skýrsla er.

Ég vil geta þess sérstaklega að skýrslan er til viðbótar mjög læsileg. Það er ekki alltaf gefið að skýrslur séu læsilegar en þessi er það svo sannarlega og sómir sér ágætlega ásamt öðru góðu lesefni á náttborðum þings og þjóðar.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Skýrslan Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra var unnin af nefnd um lagalega stöðu villtra fugla og spendýra sem skipuð var af þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra. Skýrslan var fyrsti áfanginn í samningu frumvarps til nýrra laga um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og spendýrum sem kæmi í stað eldri löggjafar um þessi málefni sem þykir úrelt og áfátt á ýmsum sviðum. Til dæmis um það er að villidýralögin ná ekki til hvala og sela og að í þeim er megináherslan lögð á veiðar en haldbær lög ættu að ná til allra villtra spendýra, hvort sem þau lifa á láði eða í legi, og gera þarf verndarsjónarmiðum jafnhátt undir höfði og veiði- og nytjasjónarmiðum. Mættu störf hringormanefndar, sem síðar kallaði sig selormanefnd, er stóð fyrir drápsherferð á selum hér við land um langt árabil, verða til varnaðar um það hversu nærri villtum dýrastofnum er unnt að ganga hérlendis í ríkjandi lagaumhverfi.

Gildandi lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum, nr. 64/1994, sem ganga undir heitinu villidýralög, hefur verið breytt margoft frá gildistöku þeirra sumarið 1994 en heildarendurskoðun hafa þau ekki fengið enda þótt margvíslegar breytingar hafi orðið á viðhorfum til veiða á villtum dýrum og verndar þeirra á tveggja áratuga löngum gildistíma laganna. Á þeim tíma hefur Ísland einnig gerst aðili að alþjóðlegum samningum sem fela í sér ýmsar skuldbindingar varðandi málefni villtra fugla og spendýra.

Nefnd umhverfis- og auðlindaráðherra benti á það í skýrslu sinni að löggjöf um velferð villtra dýra yrði að fela í sér viðurkenningu á því að öll villt dýr séu skyni gæddar verur sem umgangast skuli af virðingu. Enn fremur eigi slík löggjöf að endurspegla helstu meginreglur umhverfisréttar, einkum hvað snertir sjálfbæra þróun, samþættingu, fyrirbyggjandi aðgerðir og varúðarregluna. Meginreglan um sjálfbæra þróun felur það í sér að þörfum og væntingum hverrar kynslóðar skal mætt með þeim hætti að möguleikum komandi kynslóða á að uppfylla sínar þarfir verði ekki stefnt í hættu. Sjálfbær þróun felst í því að fullnægja þörfum manna án þess að neyslan fari út yfir þau mörk sem vistkerfi jarðarinnar leyfa. Meginreglan um samþættingu felur í sér samþættingu umhverfisverndar við önnur sjónarmið þegar ákvarðanir um aðgerðir sem hafa áhrif á umhverfið eru undirbúnar og teknar. Lykilatriði er í þessu samhengi að ekki sé litið á umhverfisvernd sem einangraðan þátt heldur sem mikilvægan og óaðskiljanlegan hluta undirbúningsferlis. Varúðarreglan felur það í sér að þegar hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni skal ekki beita skorti á vísindalegri fullvissu til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll.

Hin ítarlega skýrsla starfshóps umhverfis- og auðlindaráðherra var fyrsta skrefið í undirbúningi að brýnni endurskoðun villidýralaganna frá 1994. Í henni lögðu sérfræðingar á sviði dýrafræði og umhverfisfræða, auk kunnáttumanna um veiðar og nytjar, fræðilegan grunn sem byggja má á nýja lagasetningu um vernd, veiðar og velferð villtra dýra hér á landi. Gildandi lög eru aldurhnigin og úrelt. Endurnýjun þeirra bíður sér ekki til batnaðar heldur þarf að komast í verk hið fyrsta.“

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir að þingsályktunartillögunni verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar til úrvinnslu og væntanlega þar til góðrar og uppbyggilegrar umræðu. Það er margt hér sem minnir á þær forsendur og þann grundvöll sem var lagður í hvítbók um ný náttúruverndarlög, eins og til að mynda meginreglur umhverfisréttarins og vistkerfisnálgun í meginatriðum. Hér er hugsunin sú að löggjöf um náttúruvernd, um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra og allra helst löggjöf um landgræðslu og skógrækt myndi samfellda keðju eða samfellt net löggjafar og lagabálka sem í raun byggi á sambærilegum hugmyndafræðilegum grunni.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.