143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

[10:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær var haldið viðskiptaþing og það var glæsileg samkoma, 450 manns, uppselt á þingið. Umfjöllunarefnið var uppbygging alþjóðageirans í íslensku efnahagslífi. Þar voru menn sammála og erlendur sérfræðingur lagði ríkt á um að mikilvægasta forsenda þess að sú uppbygging tækist væri að menn hefðu plan um umgjörð efnahagslífsins og sóknarstefnu fram undan. Hann spurði alla viðstadda hvort þeir teldu að Ísland hefði plan og af 450 manns í salnum rétti enginn upp hönd, ekki einu sinni hæstv. fjármálaráðherra sem sat þó á fremsta bekk.

Í máli formanns Viðskiptaráðs í setningarræðu lýsti hann því ágætlega að síðasta ríkisstjórn hefði haft plan með aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Í þeirri aðildarumsókn felst ákveðin skuldbinding um efnahagsstefnu sem byggir á aga og því að menn uppfylli Maastricht-skilyrði til upptöku evru.

Ný ríkisstjórn hefur hins vegar enga nýja stefnu markað og það liggur ekkert fyrir hvert plan nýrrar ríkisstjórnar er. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvert er planið sem ný ríkisstjórn hefur? Það er mjög alvarlegt fyrir íslenskt efnahagslíf ef menn sitja á viðskiptaþingi og enginn í salnum hefur tilfinningu fyrir því að það sé einhver stefna um það hvert haldið skuli. Sérstaklega vil ég inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvort hann geti tekið undir með formanni Viðskiptaráðs er hvatti til þess að ríkisstjórnin mundi að minnsta kosti heita því að uppfylla Maastricht-skilyrðin, t.d. fyrir lok þessa kjörtímabils, þannig að stefnan væri sett í einhverja þá átt sem muni tryggja efnahagslegan stöðugleika og gera okkur auðveldara að takast á við verkefnin fram undan og gefa fyrirtækjunum fyrirheit um þann stöðugleika sem er nauðsynlegur til að þau geti vaxið á erlendum markaði.