143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

[10:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjuefni að fundist hafi þrír menn í þessum 450 manna sal, þ.e. ráðherrarnir sem voru viðstaddir, sem könnuðust við að það væri til plan. Í svari hins erlenda sérfræðings við fyrirspurn minni kom fram að það þyrfti alþjóðlega viðurkennt plan.

Ég spyr enn og aftur: Af hverju er fjármálaráðherra ekki tilbúinn til þess að skuldbinda sig til að fara að einhverjum alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum í þessu efni? Ég spyr sérstaklega vegna þess að í ræðu forsætisráðherra í gær sást glitta í annað plan. Það sást glitta í það plan að ganga gegn sjálfstæði Seðlabankans, að úthúða forsvarsmönnum í atvinnulífinu af því að þeir eru ekki sammála forsætisráðherranum, að úthúða lífeyrissjóðum almennings vegna þess að þeir keppa við forréttindaklíkur forsætisráðherrans um yfirráð í atvinnulífinu.

Ég segi því: Þetta er auðvitað alþjóðlega viðurkennt plan. Þetta er plan sem allir þekkja, plan ofstjórnar og ófrelsis í viðskiptalífi og plan efnahagslegrar einangrunar. Þess vegna er sérstaklega mikilvægt að fjármálaráðherra afneiti þessu ofstjórnarplani héðan úr ræðustól Alþingis. (BirgJ: Heyr, heyr!)