143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

rannsókn á leka í ráðuneyti og staða innanríkisráðherra.

[10:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er hefur ríkissaksóknari óskað eftir því að lögregla rannsaki leka á viðkvæmum persónuupplýsingum um einstakling sem leitað hefur hælis hér á landi. Málið beinist að innanríkisráðuneytinu þar sem málefni hælisleitenda eru á forræði þess og grunur leikur á að hinar viðkvæmu persónuupplýsingar sem um ræðir séu þaðan komnar. Enn fremur hefur einstaklingur lagt fram kæru á hendur innanríkisráðherranum vegna þess trúnaðarbrests sem orðið hefur.

Af þeim sökum hafa verið uppi vangaveltur um það hvort innanríkisráðherra sé sætt í embætti meðan sakamálarannsókn fer fram á athöfnum ráðuneytis og ráðherra.

Fjármálaráðherra sem einnig er formaður Sjálfstæðisflokksins hefur látið svo um mælt í fjölmiðlum að honum þyki eðlilegt að innanríkisráðherra sitji áfram þrátt fyrir sakamálarannsóknina enda væri það til þess fallið að skapa upplausn í störfum ráðuneytanna ef ráðherra væri gert að víkja í hvert sinn sem kæra beindist að þeim, og tók fjármálaráðherrann dæmi af dómsmálaráðuneytinu í því samhengi. Þessi tilraun til röksemdafærslu og réttlætingar sætir furðu og er eiginlega dæmd til að mistakast þar sem fróðir menn og langminnugir geta ekki fundið dæmi þess að ráðherrar hafi sætt sakamálarannsókn síðan Magnús Guðmundsson dómsmálaráðherra stóð í þeim sporum haustið 1932 og vék úr embætti uns dómur var fallinn sem sýknaði hann af þeim ávirðingum sem á hann voru bornar.

Það eru liðin yfir 80 ár frá þeim atburði og í ljósi þess getur tíðni slíkra atvika vart talist há. Eða getur hæstv. fjármálaráðherra rakið nokkur dæmi um sambærilegar ákærur sem okkur hinum hefur yfirsést?

Það mundi hjálpa okkur til að skilja áhyggjur hans af þeirri upplausn sem hann telur yfirvofandi vegna kærumála á borð við þau sem nú beinast að innanríkisráðuneytinu.