143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

rannsókn á leka í ráðuneyti og staða innanríkisráðherra.

[10:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Mér finnst vera farið fullfrjálslega með hugtakið sakamálarannsókn af hv. þingmanni. Í fyrsta lagi, hver liggur undir grun? Er rökstuddur grunur um eitthvert brot? Er yfir höfuð verið að rannsaka brot? Ríkissaksóknari hefur ekki rannsóknarheimildir sem skipta máli hér. Hann hefur eingöngu sent málið til lögreglunnar til „viðeigandi meðferðar“ eins og segir í fréttatilkynningu frá embættinu. Er lögreglan búin að hefja sakamálarannsókn? Er það eitthvað sem hv. þingmaður er upplýstur um? Mér er ekki kunnugt um það. Ég veit ekki til þess að nokkur einasti aðili hafi t.d. stöðu grunaðs eða hvað þá heldur að ég hafi heyrt einhvern sem tengist þessu máli, kærandann eða annan, segja: Það var þessi eða þessi. Ég hef grun um að það hafi verið hún eða hann.

Hér er bara lögð fram kæra til að reyna að komast til botns í máli sem hefur verið mikið í fjölmiðlaumræðunni og það er skiljanlegt og kannski við því að búast að stjórnarandstaðan vilji gera sér mat úr því en menn verða að halda sig (Forseti hringir.) á sporinu þegar kemur að hugtakanotkun (Forseti hringir.) og því sem rétt er varðandi formlegan farveg málsins.