143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

viðbrögð innanríkisráðherra við lögreglurannsókn.

[10:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég hlýt að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina þrátt fyrir að búið sé að ræða þetta. Þingmaðurinn situr reyndar ekki hér að jafnaði, en við erum búin að ræða þetta mál í viðeigandi þingnefnd, við erum búin að ræða þetta mál í nokkrum fyrirspurnatímum, við erum búin að ræða þetta mál í sérstakri umræðu þannig að það að reyna að halda því fram — nú hristir hv. þingmaður höfuðið, það breytir engu um að það hefur verið gert þó að þingmaðurinn hafi ekki verið viðstaddur.

Ég hef ítrekað svarað þessu máli og mér finnst með hreinum ólíkindum að menn skuli leyfa sér hér á hinu háa Alþingi að halda því til dæmis fram eins og gert var áðan að einhver sæti sakamálarannsókn. Ég hvet þá þingmenn til að líta aðeins betur á lögin í landinu og leyfa sér ekki að segja slíka hluti. Ég gæti gengið ansi langt í því að hafa yfirlýsingar um hvernig hægt er að bregðast við slíku. Að menn skuli leyfa sér slíkar ávirðingar er með algjörum eindæmum og ber þess merki að málið er löngu komið út fyrir það að snúast um einstaka hælisleitendur eða málsmeðferð, heldur er það orðið rammpólitískt mál sem lýtur að allt öðrum þáttum. Við skulum sannarlega fara yfir það.

Hv. þm. Mörður Árnason hefur upplýst hér að hann hafi minnisblað. Ég hvet hann bara til að láta rekja það. Ég hef ítrekað sagt hér að ég viti ekki til þess að nein gögn hafi farið úr innanríkisráðuneytinu. Ég hef látið skoða það í ráðuneytinu, þ.e. embættismenn hafa skoðað það, það hefur verið skoðað af hálfu Stjórnarráðsins, síðast óskaði þessi hv. þingmaður eftir því að fram færi rannsókn. Nú hefur ríkissaksóknari óskað eftir viðeigandi málsmeðferð og þá hlýtur þingmaðurinn að gleðjast yfir því, eins og við hin, að málið verði skoðað. Ég get ekkert upplýst frekar um það. Málið fer í viðeigandi farveg, ég get ekki útskýrt það og búin að segja það margsinnis. Þá verður einhver annar að útskýra það. Það kemur í ljós og ég hvet þingmanninn til að bíða eftir því sem hann hefur sagst vilja bíða eftir og fella ekki stóra dóma um menn og málefni áður en því lýkur. Svo hvet ég þingheim líka til að átta sig á því að það að leyfa sér að standa hér upp og halda því fram að þingmenn eða ráðherrar eða almennir borgarar — því að kæran lýtur að öllum starfsmönnum innanríkisráðuneytisins — sæti sakamálarannsókn (Forseti hringir.) er með hreinum ólíkindum. (Forseti hringir.) Það er örugglega einsdæmi í íslenskri sögu og í umræðu á Alþingi. (Forseti hringir.) Menn ættu að skammast sín fyrir það.