143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

viðbrögð innanríkisráðherra við lögreglurannsókn.

[10:59]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hæstv. innanríkisráðherra er því miður við sama heygarðshornið í þessu máli og áður. Þá er rétt að taka fram að það sem við ræðum hér er nýtt og hefur ekki verið rætt áður og það er sú rannsókn sem er að fara fram í ráðuneyti lögreglumála og lögreglan á að sjá um. Rannsóknin beinist meðal annars og ekki síst að ráðherranum sjálfum og nánustu samstarfsmönnum hans. Það er alveg sama hvað hann skammar mig og reyndar aðra þingmenn sem ráðherrann tók sér aðallega tíma í að skamma hér og hvernig ráðherrann reynir að dreifa í kringum sig skömmum, ávirðingum, ásökunum — ég segi nú ekki rógi en það liggur við vegna þess að menn hafa einmitt passað sig hér í þinginu að fara ekki yfir þau mörk sem siðleg geta talist (Gripið fram í.) — hann kemst ekki undan því að málið stendur á honum. Nefnt var fordæmi frá fjórða áratugnum en þau eru til fleiri. Nefndur var Illugi Gunnarsson, hæstv. menntamálaráðherra, sem vék úr pólitísku starfi meðan rannsókn beindist að honum. Enn má nefna Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem einnig gerði það (Forseti hringir.) og Björgvin G. Sigurðsson úr mínum flokki (Forseti hringir.) sem gerði það jafnframt. Þau urðu öll menn að meiri, einn af þeim er ráðherra (Forseti hringir.) og tveir aðrir eru vel metnir stjórnmálamenn í öðrum störfum um stundarsakir. (Gripið fram í.) Ég skora á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, (Forseti hringir.) hæstv. innanríkisráðherra, fyrir sjálfa sig þótt (Forseti hringir.) ekki væri annað, að íhuga stöðu (Forseti hringir.) sína mjög rækilega í þessu efni.

(Forseti (EKG): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörk.)