143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

aðkoma einkaaðila að Leifsstöð.

[11:02]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Spurning mín snýr að einkavæðingu og samgöngumálum. Hæstv. innanríkisráðherra hefur margoft lýst því yfir á undanförnum vikum og mánuðum að hún hafi áhuga á því að greiða götu þess að einkafjármagn komi að innviðum samgöngukerfisins. Hún hefur nefnt vegi, hún hefur nefnt hafnir, hún hefur nefnt flugvelli. Fyrirspurn mín núna snýr sérstaklega að flugvöllum og Leifsstöð. Á undanförnum dögum hefur ráðherrann sagt að æskilegt væri að kanna hvort einkafjármagn ætti ekki að koma að uppbyggingu í Leifsstöð. Það hefur verið talað um að þar sé þörf á 20 milljarða uppbyggingu.

Nú er það svo að Isavia á flugbrautirnar, Isavia á flugstöðvarbyggingarnar. Isavia hefur hins vegar boðið út ýmsa starfsemi innan flugstöðvarinnar og verður væntanlega framhald á slíku. En hér er hæstv. ráðherra að brydda upp á nýju. Að einkaaðilar komi að fjármögnun og ég spyr: Flugbrauta, flugbygginga? Þá væri það breyting á því fyrirkomulagi sem verið hefur. Nú er það Isavia sem hefur tekið lánin til uppbyggingar, greitt af lánunum og síðan tekið arðinn í sinn hlut, sem hefur verið umtalsverður.

Nú spyr ég hæstv. innanríkisráðherra: Hvað er það nákvæmlega sem ráðherrann á við þegar hún talar um að einkafjármagn komi í uppbyggingu og einkavæðingu, samkvæmt málskilningi flestra Íslendinga, í Leifsstöð? Hvað nákvæmlega er á borðinu?