143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

aðkoma einkaaðila að Leifsstöð.

[11:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Mér þykir auðvitað afar miður að hv. þingmaður geti ekki sofið rólegur yfir þessu en ég hvet hann samt til að gera það. Það á ekki að koma honum á óvart að sú sem hér stendur hafi aðrar pólitískar skoðanir og aðra pólitíska sýn en hann. Það hefur legið fyrir mjög lengi að við séum á öndverðum meiði í stjórnmálum. Ég vona að þingmaðurinn hv. sofi betur ef ég segi honum að ég muni bara standa við mína pólitísku sannfæringu í þessu. Ég tel að … (Gripið fram í.) Þá verður hv. þingmaður bara að vera andvaka og eiga það við sig.

Þetta liggur alveg fyrir. Þegar hv. þingmaður segir að hér sé ekki um að ræða neinar nýjar leiðir þá sagði ég ekkert að þetta væri heimspekileg uppfinning sem við hefðum verið að finna upp á Íslandi. Ég sagði að þetta væri ný leið, og er sannarlega ný leið, sem við höfum ekki farið nema þegar um er að ræða Hvalfjarðargöngin. Að mínu mati höfum við ekki skoðað nægilega að fara nýjar leiðir í uppbyggingu innviða. Ég er þeirrar skoðunar. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að ég þurfi að koma hér og útfæra nákvæmlega hvernig á að gera þetta. Ég er að lýsa pólitískum áherslum og ég mun fara í gegnum það með embættismönnum og öðrum fagaðilum hvernig þetta er best útfært. Ég þarf ekki að útfæra það nákvæmlega á þinginu þegar (Forseti hringir.) ekki liggur fyrir neitt sérstakt í því annað en að sá ráðherra sem hér stendur er á annarri skoðun en hv. þingmaður um hvernig (Forseti hringir.) megi framkvæma og fjármagna samgönguinnviði í landinu.